Segjast ekki þekkja hina mennina þrjá

14.06.2020 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Rúmensku mennirnir tveir, sem greindust með COVID-19 og eru grunaðir um þjófnað, segjast ekki þekkja hina mennina þrjá sem komu til landsins á sama tíma og lýst var eftir í gærkvöld. Þetta segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. Þeir hafa ekki verið neitt sérstaklega samvinnufúsir og hafa ekki viljað upplýsa um ferðir sínar að fullu.

Kristín Sigurðardóttir, fréttamaður, ræddi við Odd í hádegisfréttum RÚV. Hann segir mennina hafa upplýst um einhverja þætti málsins en lögreglan vinni nú að því að heimfæra það þýfi sem fannst á mönnunum við verslanir, bæði á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. 

Mennirnir tveir hafa í yfirheyrslum ekki viljað kannast við hina mennina þrjá sem lýst var eftir í gærkvöld. Það sé því gengið út frá því að þeir þrír hafi einfaldlega ekki farið að reglum um sóttkví.  Enn  er eins leitað  og lýsti lögreglan eftir honum í morgun. Hann heitir Pioaru Alexandru Ionut og er á þrítugsaldri. Starfsfólk hótela og gististaða hefur verið beðið um að vera á varðbergi.

Mennirnir komu allir til landsins með flugi frá Lundúnum í byrjun vikunnar. Þeir gáfu upp dvalarstað þar sem þeir ætluðu að vera í sóttkví. 

Oddur segir að mennirnir tveir hafi ekki komið áður til Íslands en það séu vísbendingar um tengsl við fólk sem hafi stundað vasaþjófnað hér á landi. 

Alls þurftu 11 lögreglumenn hjá lögreglunni á Suðurlandi og einn túlkur að fara í sóttkví vegna málsins. Oddur segir mikla samstöðu innan lögreglunnar, fólk sé að bjóðast að koma inn úr sumarfríi eða fresta því að fara í frí. „Almenna löggæslan leysist alveg en þetta er helmingurinn af rannsóknardeildinni og það hægir eitthvað aðeins á okkur. Þetta leysist samt allt með góðum samtakamætti.“

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi