
Óttast aðra bylgju COVID-19
Meira en helmingur greindra smita voru innanlandssmit sem eiga upptök í fjölsóttum kjötmarkaði í Peking. Útgöngubann er enn í gildi í hluta borgarinnar.
Heyra má á íbúum borgarinnar að þeim er mjög brugðið enda var að sjá sem Kínverjum hefði tekist að hemja veiruna. Þessi framvinda færir heimsbyggðinni sömuleiðis nöturlega innsýn í þá erfiðleika sem jarðarbúar geta staðið frammi fyrir í baráttu sinni við COVID-19.
Tíðindin frá Kína berast á sama tíma og stór hluti ríkja Evrópu hefur í hyggju að opna landamæri sín varlega. Á heimsvísu hafa um 430 þúsund manns látist af völdum sjúkdómsins og enn sér ekki fyrir endann á þeim ósköpum.
Auk þess er efnahagur margra ríkja í járnum vegna aðgerða sem grípa hefur þurft til vegna faraldursins.
Fjöldi skráðra tilfella hefur tvöfaldast á rúmum mánuði og nú fer kórónuveiran eins og eldur í sinu um Suður-Ameríku. Heilbrigðiskerfi landa álfunnar standa máttvana gegn vágestinum og vaxandi óróa gætir í stjórnmálalífinu þar.
Bandaríkin eru það ríki þar sem flestir hafa látist af völdum veirunnar og Brasilía færðist hratt upp í annað sætið á þeim vafasama lista. Enn hefur engin lækning fundist við COVID-19.
Þó hefur lyfjafyrirtækið AstraZeneca heitið Evrópuríkjum að verða þeim úti um 400 milljón skammta af bóluefni, þegar það verður tilbúið. Jafnvel er búist við svo verði fyrir lok ársins.