„Menn voru kannski svolítið rólegir í tíðinni“

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
„Menn voru kannski svolítið rólegir í tíðinni af því að landið var lokað og áttuðu sig ekki á þessum möguleika að það væru á ferðinni einstaklingar í brotastarfsemi sem væru nýkomnir til landsins, segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. Slakað hafi verið á sóttvörnum þess vegna en jafnskjótt og kom í ljós að Rúmenar, sem handteknir voru á föstudag, hafi brotið gegn reglum um sóttkví hafi lögrelgan tekið upp sóttvarnir.

Sextán lögreglumenn þurftu að fara í sóttkví vegna málsins þar af ellefu á Suðurlandi. Oddur bindur vonir við að lögreglumennirnir hafi sloppið við mit.

Málið hófst með því að þjófnaður í verslun á Selfossi á föstudag var tilkynntur lögreglu. 

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stoppaði bílinn við Rauðavatn og flutti fólkið síðan til okkar og við áfram í fangageymslur,“ segir Oddur.

Þremenningarnir, tveir rúmenskir karlar og ein kona, komu með vél Wizz air frá Luton-flugvelli í Bretlandi á miðvikudag. Fólkið átti að vera í sóttkví og því var tekið sýni. Konan og annar mannanna reyndust vera með virkt COVID-19 smit. Fólkið er grunað um að hafa rænt úr þónokkrum verslunum á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu því talsvert af þýfi fannst í bíl þess. Þau eru einnig grunuð um innbrot á höfuðborgarsvæðinu. Sá sem ekki er smitaður var fluttur til Reykjavíkur í gær og er þar undir eftirliti. Af sóttvarnarástæðum máttu fréttamenn ekki fara inn á lögreglustöðina á Selfossi í dag. Lögreglustöðin var sótthreinsuð tvívegis.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er annað af þeim tveimur sem dvöldu á lögreglustöðinni í nótt áberandi veikt. Um þrjúleytið í dag sóttu lögreglumenn frá höfuðborgarsvæðinu og sjúkraflutningamenn fólkið og flutti það í sóttvarnarhúsið við Rauðarárstíg í Reykjavík. 

En það hefur skapað lögreglunni vanda að hafa sýkt fólk á stöðinni. 

„Við þurftum að handtaka mann, meintan geranda í heimilisofbeldi í gærkvöldi. Hann var vistaður í fangageymslu í Reykjavík,“ segir Oddur.

Erfiðlega gengur að rekja ferðir Rúmenanna en þeir fóru meðal annars inn í matvöruverslun á Selfossi. 

„Þeir eru svo sem ekki samvinnufúsir um að upplýsa um ferðir sínar,“ segir Oddur.

Í sömu flugferð komu þrír aðrir rúmenskir karlmenn. Lögregla lýsti eftir þeim og tveir þeirra fundust í morgun og sá þriðji síðdegis. Niðurstaða liggur fyrir úr sýnatöku af tveimur mannana og reyndust þeir ekki vera smitaðir af veirunni. Fólkið gaf upp gististaði sína við komuna til landsins en sást aldrei á þeim stöðum. Þau þrjú sem handtekin voru á föstudag segjast ekkert kannast við samlanda sína.

„Það eru ákveðnar vísbendingar um að það séu tengingar þeirra á milli en við látum rannsóknina leiða það í ljós,“ segir Oddur.

Þá er grunur um að fólkið tengist skipulögðum glæpasamtökum. 

 

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV

„Við sjáum ákveðið mynstur sem lítur þannig út,“ segir Oddur.

Rannsókn á máli sexmenninganna hefur leitt í ljós að fólki var í samskiptum við annan fimm- til sex manna hóp Rúmena sem líklega hafi komið hingað til lands fyrir viku. Lögreglan leitar nú að þessu fólki.

Sextán lögreglumenn þurftu að fara í sóttkví vegna samneytis við fólkið, þar af ellefu á Suðurlandi eða um fimmtungur lögregluliðsins. 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi