Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mamma eyddi fermingarpeningunum mínum í spilakassa

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Mamma tók alla fermingarpeningana mína, eyddi þeim í spilakassa og skammaðist sín síðan svo mikið að hún lét sig hverfa í fjóra daga. Þetta segir tvítug kona, sem segir að hún hafi litla sem enga aðstoð fengið sem barn spilafíkils þegar móðir hennar eyddi öllu fé fjölskyldunnar í spilakassa. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir hjá SÁÁ, segir að þar sé verið að vinna að auknum úrræðum fyrir þennan hóp. Hún vonast til að hægt verði að bjóða upp á þau innan tíðar.

Unga konan, sem vill ekki koma fram undir nafni segir að hún hafi ekki haft hugmynd um spilafíkn móður sinnar eða að yfirhöfuð væri eitthvað til sem héti spilafíkn. Hún segist vonast til að aukin umræða um spilafíkn verði til þess að meðferðarúrræði fyrir aðstandendur spilafíkla verði efld. 

„Ég var 14 ára gömul og við mamma vorum alveg ótrúlega nánar. Ég hafði aldrei hugmynd um að hún væri spilafíkill, mér bara datt það ekki í hug. Ég hafði aldrei heyrt þetta orð; spilafíkill. Ég vissi heldur ekki hvað fíkn var yfirhöfuð. Ég var bara í fimleikum, stóð mig vel í skóla og átti gott fjölskyldulíf. Ég átti góða mömmu.“

Þetta var allt mjög ruglingslegt

Konan segir að hún hafi komið heim af fimleikaæfingu einn daginn þegar hún var í 8. bekk og mamma hennar, sem að öllu jöfnu hefði tekið á móti henni á þeim tíma, hefði ekki verið heima. Hún komst ekki inn í húsið og hringdi í pabba sinn, en foreldrar hennar voru skilin. „Ég reyndi og reyndi að ná í mömmu, en hún svaraði ekki. Ég fór svo með pabba til lögreglunnar því það náðist ekki í hana. Hún bara hvarf og lögreglan fór að reyna að grennslast fyrir um hana. Ég vissi náttúrulega ekkert hvað var í gangi, en ég heyrði á samtölunum að hún væri óvirkur spilafíkill, sem hefði hugsanlega fallið og að hún væri sennilega einhversstaðar að spila. Ég gat ekki skilið hvað var í gangi, þetta var allt mjög ruglingslegt.“

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels

Leituðu móðurinnar á spilastöðum

Hún bað pabba sinn um að fara með sér að leita að mömmu hennar. „Við fórum  á alla spilastaði sem pabbi vissi um, en ég mátti ekki fara inn á staðina þannig að ég stóð fyrir utan.“

Eftir árangurslausa leit leituðu feðginin aftur til lögreglunnar og þar segir stúlkan að hún hafi fengið ýmsar óþægilegar spurningar um móður sína. „Ég var spurð hvort hún væri þunglynd og hvort hún gæti mögulega skaðað sjálfa sig. Ég hafði aldrei orðið vör við neitt slíkt hjá mömmu, ég fór algjörlega í panik og á þessum tímapunkti varð ég virkilega hrædd um mömmu.“

Stúlkan fékk síðan eldri bróður sinn til að leita að móður þeirra á spilastöðunum, en það bar engan árangur. Móðirin svaraði hvorki síma né neinum skilaboðum. Að lokum fannst hún eftir fjóra daga í felum á heimili vina sinna. 

„Ég varð svo reið og á sama tíma fann ég fyrir mikilli höfnun. Mamma hafði farið frá okkur og vildi svo ekki hitta okkur þegar hún fannst.

Átti að skipta orðinu „áfengi“ út fyrir „spil“

Daginn eftir kom móðirin heim og þá hélt dóttirin að erfiðleikarnir væru að baki. „En þetta var bara rétt að byrja. Hún fór í meðferð á Vog og síðan í eftirmeðferð á Vík og var í burtu í um einn og hálfan mánuð. Fótunum var algjörlega kippt undan mér. Þarna var mamma í meðferð við einhverju sem ég vissi ekki hvað var, ég hafði aldrei heyrt um spilafíkn og ég gat ekki með nokkru móti skilið hvers vegna hún gat ekki bara hætt þessu. Á þessum tíma var nánast engin umfjöllun um þessa fíkn og ég skammaðist mín alveg ótrúlega mikið fyrir mömmu.“

Hún segist hafa fengið litla sem enga faglega aðstoð í kjölfar þessa. „Mamma vissi að það var aðstoð fyrir börn spilafíkla hjá SÁÁ og ég fór þangað. Þar var ég látin svara spurningalista fyrir börn alkóhólista þar sem var spurt um hversu oft foreldrið drykki og hvort það væri mikið ofbeldi á heimilinu. Ég kannaðist ekkert við þetta því að mamma var ekki með áfengisvandamál og ég hafði ekki upplifað ofbeldi á heimilinu. Mér var sagt að ég ætti að skipta orðinu áfengi út fyrir spil. Þetta var það eina sem var í boði, ég gat ekkert leitað og enginn útskýrt fyrir mér hvað spilafíkn væri. Mér fannst ég alein, að enginn væri í þessum sporum nema ég.“

Veistu afhverju mamma þín lét sig hverfa? „Já, hún féll eftir að hafa verið laus við spilin í nokkur ár.“

Hvernig leið þér út af því? „Ég skammaðist mín mjög mikið. Ég hætti að mæta í skólann, ég hætti í fimleikum. Ég þorði ekki að segja neinum hvað var í gangi.“

Heldurðu að mamma þín hafi skammast sín? „Já, ég veit að hún gerði það. Þetta er svo mikil skömm, meiri en hjá alkóhólistum. Alkóhólisti er orðið svo eðlilegt orð, flestir vita hvað það er. En fólk veit miklu minna um spilafíkn en alkóhólisma. Það er lítið talað um þessa fíkn og það var enn minna þá.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV

Ég hefði átt að fá aðstoð

Nokkru síðar eftir að þetta gerðist sagði móðirin dóttur sinni að hún hefði tæmt bankareikning hennar, þar sem hún hafði lagt inn alla þá peninga sem hún fékk í fermingargjöf skömmu áður. „Þetta voru  hátt í 400.000 krónur. Mér fannst hún vera svo vond mamma sem hefði stolið frá mér, mér fannst hún vond vegna þess að hún hafði látið sig hverfa í marga daga og ég lokaði alveg á hana í um fimm ár. Þegar ég lít til baka þá sé ég að ég hefði átt að fá aðstoð til að geta skilið að hún var ekki vond. Hún gerði þetta vegna þess að hún er fíkill. Spilafíkill. Það versta í þessu er kannski að svo margir fullorðnir í kringum mig töluðu um hvað mamma væri vond kona, að hún væri aumingi sem hafði ákveðið að eyðileggja eigið líf. Það var enginn skilningur á því að hún væri að berjast við fíkn.“

Mikil áhrif á líf fjölskyldunnar

Konan segir að í kjölfar alls þessa hafi fjölskyldan sundrast. „Flestum fannst að hún ætti bara að gjöra svo vel og hætta þessu. Viðhorfið var að hún væri að velja þetta sjálf. Þetta var ömurlegur tími, allur peningur fór í spilakassana og það var rétt til fyrir nauðsynjum. Ég gat ekki gert neitt af því sem ég hafði gert áður eins og að fara í bíó með vinum mínum. Ég þurfti að hætta í fimleikum, það voru ekki til peningar fyrir æfingagjöldunum.“

Móðurinni tókst fljótlega að vinna á spilafíkn sinni og hefur ekki spilað síðan. Mæðgurnar voru í litlum sem engum samskiptum næstu fimm árin, en eru í góðu sambandi í dag. „Hún lagði gríðarlega áherslu á að borga mér fermingarpeningana mína til baka sem fyrst og öllum öðrum sem hún skuldaði. Sem voru ófáir. Hún lagði rosalega áherslu á að hreinsa öll borð, að biðjast fyrirgefningar, en það voru alls ekki allir tilbúnir til að gleyma því sem á undan hafði gengið. Þegar ég skynjaði það fann ég að ég hafði fengið mömmu mína aftur.“

Meiri skilningur ef stuðningurinn hefði verið til staðar

Konan segist sannfærð um að ef hún hefði fengið meiri stuðning á þessum tíma, þá hefði hún haft meiri skilning á aðstæðum móður sinnar. „Þá hefði ég skilið að hún valdi þetta ekki sjálf. Að þetta var fíkn sem hún þurfti aðstoð við, eins og fólk með aðrar tegundir fíknar.“

Hún segir að hún hafi skammast sín gríðarlega fyrir mömmu sína framan af. Helsta ástæða þess að hún vilji segja sögu sína sé að hún viti til þess að mörg börn séu nú í sömu sporum og hún var fyrir nokkrum árum. „Ég hefði viljað lesa viðtal eins og þetta, það hefði sýnt mér að ég væri ekki ein. Ég hélt lengi að ég væri eina barnið sem ætti mömmu sem væri spilafíkill, en það er ekki þannig; þetta er miklu algengara en fólk heldur. Það er fullt af börnum þarna úti sem fá ekki þá aðstoð sem þau þurfa og þjást vegna þessa.“

 

SÁÁ hyggst fjölga úrræðum

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir hjá SÁÁ, segir að verið sé að fjölga meðferðarúrræðum þar fyrir aðstandendur fólks með spilafíkn. Hún segist vonast til að hægt verði að bjóða upp á þau síðar í ár eða snemma á næsta ári.  „Aðstandendum fólks með spilafíkn býðst í rauninni sama þjónusta og aðstandendum annarra sem eru með annars konar fíkn, enda fer spilafíkn oft saman við vímuefnafíkn. Þannig að við höfum úrræði fyrir fjölskyldur og einnig fyrir börn og foreldra ungra einstaklinga,“ segir Valgerður.

„Við vonumst til að geta aukið þessa þjónustu fyrir aðstandendur spilafíkla . Við höfum verið að auka við þjónustu við fólk með spilafíkn og viljum jafnframt gera betur fyrir þennan hóp sem eru aðstandendur þeirra. Ég býst við að ef við aukum þjónustuna og hún verði kynnt vel verði það vonandi til þess að fleiri leiti aðstoðar. Þetta er nú vandi sem er mjög oft falinn og fólk talsvert einangrað sem er í þessum vanda,“ segir Valgerður.

Í þáttunum Raunir, víti og happ á Rás 1 er fjallað um þau peningaspil sem leyfð eru á Íslandi og þá fíkn sem sum þeirra geta kveikt í fólki. Þættirnir eru aðgengilegir á ruv.is