Kiriyama Family, Skoffín og Snarri ásamt JóaPé með nýtt

Mynd: Kiriyama Family / Kiriyama Family

Kiriyama Family, Skoffín og Snarri ásamt JóaPé með nýtt

14.06.2020 - 14:00

Höfundar

Fjölbreyttur pakki í Undiröldunni að þessu sinni enda mikið vor í íslenskri tónlist. Að þessu sinni rennum við okkur í vandaðan kokteil af poppi, röppuðu teknó-i, vösku ræflarokki og hressum harmonikkuvals.

Kiriyama Family - Every Time You Go

Rafpoppsveitin Kiriyama Family var stofnuð árið 2008 en nafnið kemur úr skáldsögunni Battle Royale eftir japanska rithöfundinn Koshun Takami. Nú hefur sveitin sent frá sér Every Time You Go sem er þeirra fyrsta lag síðan á árinu 2018.


Stefán Elí - Get Back

Akureyski tónlistarmaðurinn Stefán Elí hefur sent frá sér lagið Get Back en það er annað lagið sem hann sendir frá sér á árinu. Að eigin sögn er hann í sjálfsskoðun þessa dagana eftir að hafa fundist lífið hálf leiðinlegt og það skýrir væntanlega titilinn Get Back.


September og Brynja Mary - Just For A Minute

Andri Þór Jónsson og Eyþór Úlfar Þórisson hafa sent frá sér fjölda laga undir nafninu September en þeirra þekktust eru sennilega Goodbye ásamt Tómas Welding og Miracle ásamt Raven. Nú senda þeir frá sér lagið Just For A Minute með söngkonunni Brynju Mary sem tók þátt í söngvakeppni sjónvarpsins í ár.


Snarri ft Jói Pé - Laufenman

Í laginu Laufenman leiða þeir Snarri og Jói Pé saman hesta sína. Starri Snær Valdimarsson, Þorsteinn Muni Jakobsson og Snorri Ástráðsson sjá um hljóðgervla og forritun en Jóhannes Damian Patreksson mundar hljóðnemann.


Skoffín - Er það samt eitthvað

Skoffín hentar íslenskum aðstæðum kom út fyrir nokkrum vikum og lagið Sætar stelpur hefur hljómað töluvert hér á Rásinni. Nú er það leikvangarokklagið þeirra Er það sem eitthvað sem vonandi fer sömu leið.


Upplyfting - Ólíkt mér

Nú geta aðdáendur Upplyftingar brátt glaðst því platan Heilsa og kveðja er í smíðum í tilefni af afmæli sveitarinnar. Ólíkt mér er annað lagið sem þeir senda frá sér á árinu en hlustendur Undiröldunnar muna eflaust eftir laginu Trú þín og styrkur sem heyrðist hér á dögunum.


Clirotes - Goodbye My Friend

Goodbye My Friend er fyrsta útgáfan undir hljómsveitarnafninu Clirotes en lagið var tekið upp á Íslandi og Skandinavíu, en fyrir hljómsveitinni fer söngvarinn og lagasmiðurinn Þór Breiðfjörð.


Vigdís Jónsdóttir - Skógarvalsinn

Harmonikkuleikarinn Vigdís Jónsdóttir hefur sent frá sér harmonikkuvalsinn Skógarvalsinn. Með Vigdísi í valsinum eru þau Halla Eyberg Þorgeirsdóttir á þverflautu, Örn Arnarson á gítar og Jón Rafnsson á kontrabassa.