Eftir að lögreglan í Minneapolis varð svörtum manni að nafni George Floyd að bana í harkalegri handtöku hefur mótmælaalda hefur risið í Bandaríkjunum og víða um heim þar sem rasisma, misrétti og lögregluofbeldi er mótmælt. Mikil umræða hefur sprottið upp í kjölfarið, meðal annars á Íslandi, um ofbeldi, yfirvald, orðanotkun, grín, menningararf og efnislega stöðu og hvernig þetta allt tengist kynþáttafordómum. Ýmsir hafa stigið fram síðustu daga og greint frá upplifun sinni af rasisma á Íslandi og til að ræða þessi mál kíktu þau Chanel Björk Sturludóttir framleiðandi, María Thelma Smáradóttir leikkona, Logi Pedro Stefánsson tónlistarmaður og Derek T. Allen stúdentafulltrúi í Lestina á Rás 1.
Kennt að tala ekki við lögregluna að óþörfu
Derek er frá Bandaríkjunum en hann hefur verið búsettur á Íslandi í nokkur ár. Hann segir atburðina síðustu daga í heimalandinu ekki koma sér á óvart. „Ég hef sjálfur ekki lent í ofbeldi en það er óþægilegt að vera í kringum lögreglumenn og ég veit að þeir líta öðruvísi á mig en vini mína,“ segir hann. „Okkur svörtu krökkunum er líka sagt þegar við erum að alast upp að tala ekki við lögregluna að óþörfu.“
Óþægilegt að vera stöðvuð af öryggisverði í Bónus
Chanel segist ekki vera alin upp við ótta við lögregluna en hún fór nýverið í mikla sjálfsskoðun eftir að vera stöðvuð af öryggisverði í Bónus fyrir engar sakir. „Það fór í gang mikil sjálfsskoðun hjá mér. Var hann að stoppa mig af því ég er brún eða var hann að sinna vinnunni sinni?“ segir hún. „Er litið á mig sem hluta af samfélaginu eða er ég staðalímynd, brún manneskja sem er að stela í búð?“