Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hluti af samfélaginu eða staðalímynd?

Mynd: Samsett / Samsett

Hluti af samfélaginu eða staðalímynd?

14.06.2020 - 13:05

Höfundar

Pétur Jóhann hefur beðist afsökunar á myndskeiði sem sýnir hann leika og gera kynferðislegt grín að asískri konu. Í umræðum um rasisma, í kjölfar mótmælaöldu sem geisar í Bandaríkjunum, spyr leikkonan María Thelma Smáradóttir hvers vegna fólki þyki almennt í lagi að hlæja að slíku gríni.

Eftir að lögreglan í Minneapolis varð svörtum manni að nafni George Floyd að bana í harkalegri handtöku hefur mótmælaalda hefur risið í Bandaríkjunum og víða um heim þar sem rasisma, misrétti og lögregluofbeldi er mótmælt. Mikil umræða hefur sprottið upp í kjölfarið, meðal annars á Íslandi, um ofbeldi, yfirvald, orðanotkun, grín, menningararf og efnislega stöðu og hvernig þetta allt tengist kynþáttafordómum. Ýmsir hafa stigið fram síðustu daga og greint frá upplifun sinni af rasisma á Íslandi og til að ræða þessi mál kíktu þau Chanel Björk Sturludóttir framleiðandi, María Thelma Smáradóttir leikkona, Logi Pedro Stefánsson tónlistarmaður og Derek T. Allen stúdentafulltrúi í Lestina á Rás 1.

Kennt að tala ekki við lögregluna að óþörfu

Derek er frá Bandaríkjunum en hann hefur verið búsettur á Íslandi í nokkur ár. Hann segir atburðina síðustu daga í heimalandinu ekki koma sér á óvart. „Ég hef sjálfur ekki lent í ofbeldi en það er óþægilegt að vera í kringum lögreglumenn og ég veit að þeir líta öðruvísi á mig en vini mína,“ segir hann. „Okkur svörtu krökkunum er líka sagt þegar við erum að alast upp að tala ekki við lögregluna að óþörfu.“

Óþægilegt að vera stöðvuð af öryggisverði í Bónus

Chanel segist ekki vera alin upp við ótta við lögregluna en hún fór nýverið í mikla sjálfsskoðun eftir að vera stöðvuð af öryggisverði í Bónus fyrir engar sakir. „Það fór í gang mikil sjálfsskoðun hjá mér. Var hann að stoppa mig af því ég er brún eða var hann að sinna vinnunni sinni?“ segir hún. „Er litið á mig sem hluta af samfélaginu eða er ég staðalímynd, brún manneskja sem er að stela í búð?“

Af hverju er þetta grín fyrir sumum?

Það skapaðist hávær umræða þegar myndskeið af grínistanum Pétri Jóhanni Sigfússyni fór í umferð á netmiðlum, þar sem hann er að fara með gamanmál fyrir félaga sína og margir hafa sagt þau rasísk og meiðandi. Sema Erla Ser­d­ar, aðgerðasinni og formaður Solar­is, hjálp­ar­sam­taka fyr­ir hæl­is­leit­end­ur og flótta­fólk á Íslandi, vakti athygli á myndskeiðinu í harðri gagnrýni sinni á Facebook. Pétur Jóhann baðst í gær afsökunar á brandaranum. „Fyrir þá sem ekki hafa séð þetta þá næst myndskeið af honum að leika asíska konu og hann sýnir kynferðislega hegðun,“ segir María. „Þarna standa svo Gilzenegger, Björn Bragi og fleiri og hlæja.“ Hún segir mikilvægt að fólk spyrji sig hvers vegna það hlægi að meiðandi gríni. „Af hverju er þetta grín fyrir sumum en ekki öðrum?“

„Sárt þegar fólk talar við mömmu eins og hún sé heyrnarlaus“

Chanel, María og Logi Pedro eiga öll mæður af erlendum uppruna sem hafa verið búsettar á Íslandi. Þau segja öll að þær hafi orðið fyrir mun meiri fordómum en þau sjálf. „Móðir mín er alveg dökk, ættuð frá Jamaica. Hún bjó hér í átta ár en er flutt aftur út til Englands þar sem hún ólst upp,“ segir Chanel sem segir að erfitt hafi verið fyrir hana að aðlagast samfélaginu. „Það að ég sé íslensk, með ljósara hörund og meiri partur af samfélaginu, hefur sett mig í mikla forréttindastöðu. Það er erfitt að horfa upp á einhvern sem er náinn þér og hefur upplifað mismunun hér heima, geta ekki sett sig í sömu spor en upplifa þetta samt að einhverju leyti.“ Logi tekur í sama streng. „Við sem eigum erlendar mæður sem búa á Íslandi getum alveg tekið undir að það er miklu erfiðara fyrir þær að komast inn í íslenskt samfélag,“ segir hann.

María segir að Íslendingar mættu gjarnan temja sér meiri þolinmæði gagnvart þeim sem eiga erfitt með tungumálið. „Ef það er smá bjagað verður fólk fyrir aðkasti út af því,“ segir hún og tekur móður sína sem dæmi. „Mér finnst mjög sárt þegar fólk byrjar að reyna að tala hærra við mömmu mína eins og hún sé heyrnarlaus, talar fram hjá henni eða talar beint við mig en er að tala um mömmu mína sem stendur við hliðina á okkur.“

Hægt er að hlýða á umræðurnar í heild sinni í spilaranum efst í fréttinni. Að lokum mæla þáttastjórnendur með þáttaröðinni Íslenska mannflóran, í umsjón Chanel Bjarkar, þar sem hún veitir innsýn í hugarheim blandaðra Íslendinga.

Tengdar fréttir

Innlent

Pétur Jóhann biðst afsökunar

Pistlar

George Floyd, martröðin og sannleiksveiran