Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Götur í Kaupmannahöfn nefndar eftir uppreisnarfólki

14.06.2020 - 02:34
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn hafa orðað það að nefna götur í borginni í höfuðið á uppreisnarfólki sem barðist fyrir frelsi þræla og verkafólks í dönsku vestur Indíum.

Umræða um hugmyndina færðist í aukana eftir fjölmenna göngu í Kaupmannahöfn á sunnudaginn var til að minna á gildi lífs þeldökks fólks.

Norðurhöfn þykir kjörin til þess arna. Bjartsýni ríkir innan borgarstjórnarinnar um að tillagan verði samþykkt.  

Styttan af Maríu

Fyrir tveimur árum var konu sem hefur verið nefnd María drottning reist stytta í borginni. Hún hét réttu nafni Mary Thomas.

Hún ásamt þremur öðrum konum hóf uppreisn þeldökks verkafólks á eyjunni Saint Croix í Karíbahafi árið 1878.

Styttan af henni er sú fyrsta í Kaupmannahöfn sem sýnir þeldökka manneskju.

Danmörk fyrst til að banna þrælasölu

Danmörk var fyrsta Evrópuríkið til að banna þrælasölu frá Afríku til Vestur-Indía. Það gerðist árið 1792 en þrælahald var þó leyft áfram til ársins 1848.

Það ár gekk mikil byltingaralda yfir Evrópu, einveldi var afnumið í Danmörku og stjórnarskrá gekk í gildi árið eftir.

Með stjórnarskránni var komið á ýmsum borgaralegum réttindum. Aðbúnaður þeldökks verka- og vinnufólks batnaði þó ekki mikið við tilkomu hennar.

Danska konungsveldið átti þrjár eyjar í Karíbahafi allt til ársins 1917 en þá keyptu Bandaríkjamenn þær af Dönum. Það voru eyjarnar Saint Thomas, Saint Jan og fyrrnefnd Saint Croix.

Hvaða nöfn verða fyrir valinu?

Íslendingar þekkja söguna af Hans Jónatan, manninum sem stal sjálfum sér. Hann fæddist þræll á Saint Croix árið 1784. Þaðan hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann barðist fyrir frelsi sínu.

Að lokum fluttist hann til Íslands og gerðist verslunarmaður á Djúpavogi. Nafn hans er ekki á lista yfir það fólk sem mögulega gæti fengið götur nefndar eftir sér, enda var hann ekki byltingar- eða uppreisnarforingi í þess orðs fyllstu merkingu.

Áðurnefnd Mary Thomas kemst á listann en hún mátti dúsa í fangelsi í Kaupmannahöfn vegna uppreisnartilraunar sinnar. Auk hennar má nefna Axeline Elizabeth Salomon, Gottlieb Bordeaux, David Hamilton Jackson, og Mathilda McBean. Þau leiddu öllu uppreisnir gegn dönskum nýlenduherrum.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV