„Gaman að láta alla fagna mér“

Mynd: RÚV / RÚV

„Gaman að láta alla fagna mér“

14.06.2020 - 16:31

Höfundar

Á dögunum sendi rapparinn Joey Christ frá sér nýtt lag sem nefnist Píla. Lagið er af breiðskífu hans sem heitir einfaldlega Bestur, og prýðir plötuna brosandi andlit rapparans sjálfs.

„Ég ákvað að platan skyldi heita Bestur sem setur strax sterkan tón og ákvað að hafa ljósmynd af mér framan á, mér fannst það eiga samleið með nafninu,“ segir rapparinn Joey Christ, eða Jóhann Kristófer. Hann fékk kollega sína, þá Birni, GKR, Benna, Flona, Daniil og Lil Binna, sem allir rappa með honum á plötunni, til að fara í svipaða myndatöku. „Þetta er svolítið eins og bekkjarmynd eins og var í Skaramúss í MH. Ég er mjög ánægður með hvernig þetta kom út,“ segir hann.

Joey Christ stimplaði sig rækilega inn í rappsenuna á Íslandi fyrir þremur árum með laginu Joey Cypher sem fékk mikla spilun og var meðal annars valið lag ársins af dómnefnd Grapevine-tímaritsins. „Joey Cypher kom á réttum tíma og með réttum félagsskap,“ segir Jóhann. Með honum í laginu eru rappararnir Birnir, Aron Can og Herra Hnetusmjör. „Þetta er rétt áður en Herra Hnetusmjör fer á winning streak og áður en Birnir gefur út plötuna sína. Svo er Aron Can bara gulldrengurinn svo þetta er ákveðið landslið.“

Hann hélt upp á afmælið sitt nýverið og hátíðahöldin stóðu yfir í heila viku enda er hann, eins og hann kallar sig sjálfur: „mikill afmælisprins. Mér finnst gaman að láta alla fagna mér.“

Aðspurður hverjir uppáhalds rapparar hans séu segir hann að það séu þeir Yung Nigo Drippin, Birnir og Lil Binni sem rappar með honum í nýja laginu.

Saga Garðarsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson ræddu við Joey Christ í Morgunkaffinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hausinn á hundrað hjá Joey Christ

Tónlist

Kunni ekkert að rappa

Popptónlist

Meira á leiðinni frá Joey Christ