Á fjórðu hæð safnsins má finna þrjár þessara sýninga og segir Hlynur Hallsson safnstjóri skemmtilegt hversu ólíkar þær eru. Á sýningu Heimis Björgúlfssonar er mikið loft og rými á milli verka en sýningin samanstendur af málverkum, skúlptúr og klippimyndum. Titill sýningarinnar er fenginn frá svæði í eyðimörkinni í Kaliforníu, þangað sem Heimir hefur nokkrum sinnum farið til að taka myndir og safna andrúmslofti, sem hann nýtir sérstaklega í klippimyndunum.
Heimir er sjálfur búsettur í Los Angeles og ætlunin var að hann kæmi til Íslands til að setja upp sýninguna og vera viðstaddur opnun. Vegna útgöngubanns í Kaliforníu og annarra ferðatakmarkana vegna heimsfaraldursins varð þó ekkert af því. Sýningin var því sett upp í gegnum fjarfundaforritið Zoom, sem gekk að sögn Hlyns mjög vel enda sýningin fremur einföld í uppsetningu og Heimir vel skipulagður.