Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjórar einkasýningar opna samtímis

Mynd: Listasafnið á Akureyri / Listasafnið á Akureyri

Fjórar einkasýningar opna samtímis

14.06.2020 - 11:32

Höfundar

Fjöldi nýrra sýninga opnaði um síðustu helgi á Listasafninu á Akureyri, þar af fjórar einkasýningar. Heimir Björgúlfsson opnaði sýninguna Zzyzx, Brynja Baldursdóttir sýninguna Sjálfsmynd, Jóna Hlíf Halldórsdóttir sýninguna Meira en þúsund orð og Snorri Ásmundsson sýninguna Franskar á milli. Víðsjá heimsótti Listasafnið á Akureyri.

Á fjórðu hæð safnsins má finna þrjár þessara sýninga og segir Hlynur Hallsson safnstjóri skemmtilegt hversu ólíkar þær eru. Á sýningu Heimis Björgúlfssonar er mikið loft og rými á milli verka en sýningin samanstendur af málverkum, skúlptúr og klippimyndum. Titill sýningarinnar er fenginn frá svæði í eyðimörkinni í Kaliforníu, þangað sem Heimir hefur nokkrum sinnum farið til að taka myndir og safna andrúmslofti, sem hann nýtir sérstaklega í klippimyndunum. 

Heimir er sjálfur búsettur í Los Angeles og ætlunin var að hann kæmi til Íslands til að setja upp sýninguna og vera viðstaddur opnun. Vegna útgöngubanns í Kaliforníu og annarra ferðatakmarkana vegna heimsfaraldursins varð þó ekkert af því. Sýningin var því sett upp í gegnum fjarfundaforritið Zoom, sem gekk að sögn Hlyns mjög vel enda sýningin fremur einföld í uppsetningu og Heimir vel skipulagður. 

Mynd með færslu
 Mynd: Listasafnið á Akureyri

 

Innra landslag mannsins

Í næsta sal er sýningin Sjálfsmynd þar sem Brynja Baldursdóttir vinnur með hið innra landslag mannsins. Brynja er þekkt fyrir bókverkin sín og á þessari sýningu er hún með þrjú bókverk sem sýnd eru í vídjóverki, á ljósmyndum og á stöplum undir gleri. Í þeim er líkaminn, hugurinn og sálin túlkuð og eru þessir þrír þættir gegnum gangandi viðfangsefni í öllum verkunum á sýningunni. Auk bókverkanna sýnir Brynja lágmyndir sem hún vinnur úr steypu. 

Brynja var tíu ár að vinna að sýningunni. „Það sem ég er stoltust af er ekki endilega það sem sést hérna á sýningunni. Af því ég er með skerta starfsorku eftir bílslys og veikindi þá tók þetta tíu ár. Og í mínu tilfelli var þetta svolítið eins og að grafa djúpan skurð með teskeið. En það tókst. Ef maður heldur áfram og er fylginn sér þá tekst þetta,“ segir Brynja.

Mynd með færslu
 Mynd: Listasafnið á Akureyri

 

Marglaga og húmorísk

Á fjórðu hæð safnsins er einnig að finna sýningu Jónu Hlífar Halldórsdóttur sem ber titilinn Meira en þúsund orð. Einkennandi fyrir þá sýningu er blái liturinn sem birtist í flestum verkanna auk þess sem salurinn er baðaður blárri birtu sem flæðir inn í gegnum filmuklæddan glugga á rýminu. Á sýningunni vinnur Jóna Hlíf meðal annars með ljósmyndir úr gamalli danskri fræðslubók um Ísland og ofan á ljósmyndirnar setur hún blálitaðan texta. Þar er til dæmis skrifað íslensk angist og íslensk auðmýkt og textinn virðist við fyrstu athugun ekki passa við myndefnið. Hlynur segir sýninguna marglaga og mikinn húmor í verkunum þar sem unnið er með hugmyndir um hvað sé íslenskt, hvað sé alþjóðlegt og hver við séum.

Mynd með færslu
 Mynd: Listasafnið á Akureyri - Aðsend

 

Stilltur inn á milli 

Á ganginum á þriðju hæð er einnig unnið með hugmyndir um sjálfsmynd ákveðinna hópa, líkt og í sýningu Jónu Hlífar. Þar sýnir Snorri Ásmundsson portrett af vel völdum Akureyringum sem eru í uppáhaldi og hafa hreyft við honum. Sýningin ber titilinn Franskar á milli og vísar í þá akureyrísku og norðlensku menningu að fá sér franskar á milli í hverskyns skyndibita. 

Snorri hefur stundum verið kallaður „óþekka barnið“ í íslenskri myndlist og segist hann vissulega hafa verið Akureyringum erfiður í gegnum tíðina. „Ég á náttúrulega langt ástar/haturssamband við Akureyri. Er fæddur og uppalinn þar og hef verið erfiður Akureyringum. Eins og til dæmis fyrir tuttugu árum síðan þegar ég gerði upplogna heimildarmynd um klámiðnaðinn á Akureyri,“ rifjar Snorri upp. Á sama tímabili hafi hann gert klámfengnar teikningar af nokkrum heiðursborgurum Akureyrar, eins og Matthíasi Jochumssyni, Davíð Stefánssyni og fleirum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Listasafnið á Akureyri

 

Snorri segist standa við allt sem hann hafi sagt og gert en vill þó með þessari sýningu bæta fyrir brot sín. „Þó ég sé með króníska óþekkt þá finnst mér gaman að vera stilltur inn á milli og langaði bara að mála mynd af vel völdum Akureyringum.“

Rætt var við Hlyn Hallson, Brynju Baldursdóttur og Snorra Ásmundsson í Víðsjá. Viðtalið í heild sinni má heyra í spilaranum hér að ofan. 

Nánari upplýsingar um sýningarnar má finna á vefsíðu Listasafnsins á Akureyri. 

Tengdar fréttir

Myndlist

Stolið verk eftir Banksy kemst í leitirnar á Ítalíu

Myndlist

„Erum svolítið hissa á þessu“

Myndlist

Palli var einn í heiminum í sex eða sjö vikur

Myndlist

Óendanleg uppspretta gleði og fegurðar