Félag eldri borgara kvartaði yfir nafni ferðaskrifstofu

14.06.2020 - 08:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristján Ingvarsson - RÚV
Neytendastofa sér ekki ástæðu til að grípa til neinna aðgerða vegna kvörtunar Félags eldri borgara yfir nafni Ferðaskrifstofu eldri borgara. Miðað við ákvörðun Neytendastofu virðist grunnt á því góða milli ferðaskrifstofunnar og félagsins. Félagið grunar ferðaskrifstofuna um að hafa brotið persónuverndarlög og ferðaskrifstofan segir félagið hafa reynt að eigna sér aðventuferðir hennar til Kaupmannahafnar sem hafa verið skipulagðar síðan 2004.

Félag eldri borgara, FEB, kvartaði til Neytendastofu í byrjun árs og krafðist þess að ferðaþjónustufyrirtækinu Niko ehf yrði bannað að nota nafnið Ferðaskrifstofu eldri borgara.

Í kvörtun félagsins kom fram að FEB og Niko ehf hefðu verið í ákveðnu samstarfi en þegar upp úr því hefði slitnað hefðu auglýsingar með nafni ferðaskrifstofunnar farið að birtast.

Félagið taldi nafnið á ferðaskrifstofunni til þess fallið að villa um fyrir neytendum,  meðal annars félagsmönnum FEB og skapa ruglingshættu til tjóns fyrir FEB og það félagsstarf sem unnið væri á vegum þess. Ferðaskrifstofan væri að markaðssetja og auglýsa sig beint gagnvart félagsmönnum FEB og láta að því liggja að þetta væru ferðir á vegum eða tengdust FEB með einhverjum hætti.

Félagsmenn hafi meðal annars fengið markpóst frá ferðaskrifstofunni þar sem áréttað væri að fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins hefði hafið störf hjá ferðaskrifstofunni.

Þá kemur fram í kvörtuninni að félagið hafi kvartað til Persónuverndar vegna mögulegs öryggisbrots. „[L]íkur séu á að aðili hafi komist yfir félagatal og netfangaskrá FEB og það verið notað í óleyfi,“ eins og það er orðað. Sigurður Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu eldri borgara, segir í orðsendingu til fréttastofu að ferðaskrifstofan hafi ekkert heyrt frá Persónuvernd og þessar ásakanir séu algjörlega úr lausu lofti gripnar.

Sigurður sagði í svari sínu til Neytendastofu að lagalega gæti engin eignað sér hugtakið „eldri borgari“.  Það væri almennt notað um fólk á ákveðnu æviskeiði.  Þá hafi birst auglýsing frá ferðaskrifstofunni í tímariti FEB eftir að félagið kvartaði til Neytendastofu. 

Þá hafi aðrar ferðaskrifstofur auglýst ferðir fyrir eldri borgara um áratugaskeið. Og gerð er athugasemd við það að FEB reyni að eigna sér aðventuferð eldri borgara til Kaupmannahafnar sem hafa verið skipulagðar síðan 2004. Aðkoma félagsins hafi eingöngu falist í því að auglýsa ferðina og taka við greiðslu staðfestingargjalds. 

Neytendastofa segir í ákvörðun sinni að vissulega séu nokkur líkindi með heitunum. Ekki sé þó hægt að horfa fram hjá því að heiti þeirra beggja séu afar almenn og lýsandi fyrir starfsemi þeirra.  Var því ekki talin ástæða til aðhafast frekar.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi