„Fyrst var það bara hrossagaukurinn sem kom og baðaði sig hjá okkur. Þetta var hans einkaeign. Síðan bættust fleiri fuglar við; þröstur og lóa, síðan kom jaðrakan og nú spóinn,“ segir Óskar.
Hann segist sjá mikinn mun á því hvernig mismunandi fuglategundir haga sér í baði. „Jaðrakan er fín með sig og rétt dýfir gogginum í baðið. Hrossagaukurinn og þrösturinn busla í baðinu. Og spóinn gerir það líka. Það er yndislegt að fylgjast með þessu,“ segir Óskar sem segir fuglabaðið og gesti þess veita þeim hjónum mikla skemmtun. „Það verður gaman að sjá hvaða fugl kemur næst.“