Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aukin gæsla í sóttvarnarhúsinu við Rauðarárstíg

14.06.2020 - 19:00
Mynd: Þór Ægisson / Þór Ægisson
Gæsla í sóttvarnarhúsinu við Rauðarárstíg í Reykjavík sem var opnað aftur í dag verður aukin frá því sem áður var. Einnig verða opnuð sóttvarnarhús á Akureyri og á Egilsstöðum til að ta ka við smituðum ferðamönnum.

Sóttvarnarhúsinu við Rauðarárstíg var lokað í maí þegar verulega dró úr COVID-19 faraldrinum hér á landi. Undirbúningur hófst svo skyndilega að nýju í dag en flýta þurfti opnun hússins vegna smitanna sem greindust í gær. Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnarhúsa, segir að vel hafi gengið að koma öllu í stand á tilsettum tíma.

„Undirbúningurinn fólst aðallega í því að ná í dótið okkar frá því síðast og setja upp bæði herbergin og þær stöðvar sem við höfum á hverri hæð. Sóttvarnarstöðvar sem við notum til að klæða okkur í og úr búning.“

Auka gæslu vegna smitanna í gær

Húsin eru fyrir smitaða sem ekki eiga kost á að vera heima hjá sér. Sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins munu sinna fólkinu auk hótelstarfsmanna og öryggisvarða sem verða á vakt allan sólarhringinn. Gæsla verður aukin frá fyrri opnun.

„Vegna komu nokkurra einstaklinga sem að hafa komist í kast við lögin þá verður gæslan aukin. Við erum með myndavélar hér á öllum göngum þannig að við fylgjumst vel með því að fólk hlýði því að það sé inni á herbergjunum sínum. Við ætlumst til þess að fólk hlýði og hingað til hefur það gengið mjög vel og við bara vonum að svo verði áfram.“

Einangrunin engin lúxusdvöl

Gylfi segir að einangrunin reynist mörgum erfið. Víða séu ranghugmyndir um vistina í sóttvarnarhúsinu sem eigi ekkert sammerkt með hefðbundinni hóteldvöl.

„Hún er nú flestum erfið satt best að segja. Þetta eru lítil herbergi, fólk er innilokað hér í margar vikur og þú færð ekki að fara út úr herberginu þínu. Þú ert ekki í samskiptum við fólk nema okkur sem klæðum okkur upp í sóttvarnarbúninga þannig þetta er nú erfiðara en fólk heldur.“