Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Væntir þess að fleiri verði sendir úr landi

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ? - logreglan.is
Lögreglan telur að með tilkomu sérhannaðs bíls til að sinna landamæraeftirliti muni þeim fjölga sem sendir eru héðan úr landi. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra afhenti lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bíl í maí síðastliðnum sem er sérstaklega hannaður til að sinna landamæraeftirliti.

„Ég vænti þess að við munum finna fleiri,“ segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, aðspurður um áhrif bílsins á landamæraeftirlit. Hann segir bílinn einfalda eftirlitið og þannig gera leit að fólki sem dvelst eða starfar ólöglega á Íslandi skilvirkari.  

Hann segir hugmyndina upphaflega hafa verið að setja upp færanlega landamærastöð til að geta haft eftirlit á landamærum, öðrum en Keflavíkurflugvelli. Til dæmis muni bíllinn nýtast í eftirliti með komu skemmtiferðaskipa.   

Fara á vinnustaði og stöðva bíla með Albönum og Rúmenum

Jóhann segir lögregluna þó einnig nýta bifreiðina til að fara á vinnustaði og leita að starfsfólki sem vinnur ólöglega á Íslandi. Oftast fari lögreglan á nýja bílnum í samstarfi við Skattinn eða Vinnueftirlitið, en einnig fari hún sjálf á vinnustaði, komi ábending um ólöglega starfsmenn.   

RÚV greindi frá því í lok maí að bíllinn hefði verið notaður við aðgerðir við byggingarsvæði í Garðabæ þar sem fjórir erlendir ríkisborgarar voru handteknir og afskipti höfð af tveimur hælisleitendum.   

Eins stöðvi lögreglan „bíla með Albönum eða Rúmenum. Þá athugum við hvort þeir séu þeir sem þeir segjast vera,“ segir Jóhann.  

„Þá hnippum við í þá og ýtum þeim út“ 

Í samtali við fréttastofu segir Jóhann að síðan bíllinn var tekinn í notkun, um miðjan maí, hafi um það bil hundrað manns verið teknir til athugunar í bílnum. Um það bil sextíu þessara athugana hafi farið fram á vinnustöðum. Átta ólöglegir hafi fundist með þessum hætti.   

Vegna COVID-19 faraldursins hafi þeir sem fundist hafa hingað til ekki verið sendir úr landi. Lögreglan hafi rætt við þá og fengið upplýsingar um þá. Við afléttingu ferðatakmarkana verði þeir sendir úr landi. „Þá hnippum við í þá og ýtum þeim út.“ 

Heildarkostnaður við bílinn tæpar 27 milljónir króna  

Samkvæmt skriflegu svari frá dómsmálaráðuneytinu var ákvörðun tekin í maí 2018 um að festa kaup á bílnum. Markmiðið var „að koma upp færanlegri landamærastöð (ökutæki) með öllum nauðsynlegum búnaði fyrir landamæraeftirlit“.   

Heildarkostnaður verkefnisins nam tæpum 27 milljónum króna, en styrkur fékkst úr Öryggissjóði Evrópusambandsins fyrir 75% af þeim kostnaði.  

  

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV