„Þarna eiga Íslendingar að skammast sín“

Mynd: Orri Freyr Rúnarsson / .

„Þarna eiga Íslendingar að skammast sín“

13.06.2020 - 09:38

Höfundar

„Ég er að reyna að feta mig upp af þessum botni sem ég var á,“ segir Jónína Benediktsdóttir sem er nýkomin úr meðferð í Krýsuvík. Hún játar því að vera umdeild og segist hafa verið milli tannanna á fólki frá því hún kom aftur heim til Íslands í byrjun níunda áratugarins eftir að hafa verið í löngu háskólanámi í Kanada.

„Ég kem hérna sem amerísk skvísa í þröngum kjól og háum hælum, er íþróttafræðingur með mjög góða menntun á bakinu. Stefán Jón Hafstein ræður mig til að taka við Morgunleikfiminni,“ segir Jónína en það gustaði strax um hana. Hún fór nýjar leiðir í morgunleikfiminni og fyrr en varði var hún orðin landsfræg. „Ég tók ekkert eftir því, ég hef aldrei þrifist á frægð,“ segir Jónína, „en ég passa yfirleitt að vera á undan minni samtíð í því sem ég kann.“ Jónína byrjaði með eróbikk á Íslandi og Jane Fonda-æfingar og síðar meir spinning. „Ég byrjaði með fyrsta spa-ið á Íslandi sem er nú Nordica Spa. Þetta hannaði ég allt. Að vera frægur merkir ekkert í mínum huga. Það mega allir hafa skoðanir á mér, en þegar fólk lýgur upp á mig og býr til falsfréttir verð ég sár. En þegar ég á eitthvað skilið get ég ekkert annað sagt en að fjölmiðlar lyfta manni upp til hæstu hæða, en þeir geta líka brennt þig til ösku.“

Jónína gekk í gegnum erfitt tímabil eftir að hún skildi við Jóhannes Jónsson í Bónus og hún viðurkennir að hafa farið fram úr sér. „Ég var orðin gríðarlega kvíðin út af fjölmiðlum og var alltaf að hlífa börnunum mínum og loka á mínar tilfinningar. Ég fór þá að nota áfengi til að róa taugarnar sem er náttúrulega eins og að setja olíu á eld. Allt áfengi eykur kvíða.“ Hjónabandið við Gunnar í Krossinum varð svo ekki til að létta á andlega álaginu. „Hans vandamál varð ég að taka á bakið því hann brotnaði undan þessu. Ég hélt ég gæti borið hans ruslapoka en ég gat það ekkert.“ Hún segist eiga í ágætum samskiptum við Gunnar sem búi á Spáni ásamt Snorra í Betel. „Þeir eru flottir þar.“

Það var ekki auðveld ákvörðun fyrir hana að vinna í sjálfri sér og losna við vímuefnin. „Ég fór á Krýsuvík í langtímameðferð fyrir fíkla, og ég er stolt af sjálfri mér að hafa farið þangað.“ Hún segist hafa þurft tíma í burtu frá öllu öðru og vinna með ráðgjafa í 12 spora kerfinu. Hún segir hina vistmennina í fyrstu ekki hafa þekkt sig en það hafi breyst eitt spilakvöldið. „Þá vorum við í Trivial Pursuit og nafnið mitt kom upp. Ert þú Jónína Ben? spurðu þau.“ Hún tjáir sig við fjölmiðla nú því hún hafi heyrt um sig sögur sem voru ekki sannar. „Þá tók ég þá ákvörðun að segja satt meðan ég væri á lífi og um sjálfa mig líka. Þetta náttúrulega þola ekki allir, flestir vilja setja fyrirmyndir upp á stall. En mín reynsla er sú að það sé betra að segja satt um sjálfan þig en að láta aðra ljúga um þig.“

Jónína segist hafa unnið allt sitt líf eða frá sjö ára aldri. „Ég tíndi ánamaðka, gaf þeim hafragraut, þeir fitnuðu, ég skar þá í tvennt og seldi einn sem tvo.“ Hún velti því fyrir sér að fara í meðferð í Bandaríkjunum en hætti við því hún vildi ekki fljúga. „Ég er búin að vera að flækjast til Póllands í 16 ár fram og til baka því ég fékk engan frið með reksturinn minn hér. Ég átti yndislegt Detox heilsuhótel hér en það var bara eyðilagt. Það var alltaf fullt fyrstu árin en svo komu einhverjir vitleysingar og bjuggu til frétt um stólpípur og skolanir og eyðilögðu viðskiptahugmyndina. Þarna eiga Íslendingar að skammast sín. Það er hægt að taka niður bestu fyrirtækin og mestu frumkvöðlana með rangfréttum. Þetta á að vera fyndið en er það ekki - ef þú talar alltaf niður til þeirra sem eru að reyna að gera eitthvað nýtt. Ég var bara búin á því og þurfti að selja hótelið og fara að vinna í Póllandi.“

Þrátt fyrir að hafa ekki mikið tekið þátt í stjórnmálum nýlega kveðst hún afar pólitísk. „Ég er mjög mikil jafnaðarmanneskja. Ég vil jöfnuð og þoli ekki misrétti. Það er rosalega margt í íslensku samfélagi sem er helsjúkt, eiginlega ógeðslegt.“ Jónína vinnur nú að því í samstarfi við Hótel Örk í Hveragerði að setja upp tveggja vikna heilsumeðferð en fullbókað er í fyrsta námskeiðið sem hefst eftir viku. „Yfir 50 manns að koma. Ég get ekkert annað en verið rosalega þakklát,“ segir Jónína sem verður með næsta námskeið um miðjan júlí.