Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sextán í sóttkví vegna búðarþjófa á Selfossi

Mynd með færslu
Selfoss og Ölfusá. Á myndinni má sjá hús við Jórutún. Myndin er úr safni. Mynd: Jóhannes Jónsson
Sextán eru komnir í sóttkví vegna þriggja búðarþjófa sem handteknir voru í dag á höfuðborgarsvæðinu. Þriggja manna er enn leitað. Mennirnir komu til landsins með flugi á þriðjudag og áttu að vera í sóttkví. Ákveðið var að taka sýni úr þeim og reyndust tveir vera jákvæðir. Sóttvarnalæknir gerði í framhaldinu þá kröfu að mennirnir yrðu vistaðir hjá lögreglu þar til niðurstöður mótefnamælingar lægju fyrir.

Fréttin hefur verið uppfærð en samkvæmt upplýsingum frá Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni, eru 16 í sóttkví en ekki fjórtán eins og upphaflega var sagt.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst eru mennirnir frá Rúmeníu og voru ekki í svokallaðri B-sóttkví sem fólk getur fengið ef það kemur hingað vegna vinnu.

Reynist mennirnir jákvæðir fer smitrakning á fullt sem mun þá væntnlega nýtast við rannsókn á þjófnaðarmálinu.

Samkvæmt núgildandi reglum eiga allir sem koma til landsins að fara í tveggja vikna sóttkví. Þeim reglum verður breytt á mánudag þegar fólki verður boðið upp á sýnatöku í staðinn. 

Fólk getur þó áfram skráð sig í tveggja vikna sóttkví og sagði ríkislögreglustjóri á blaðamannafundi á föstudag að fylgst yrði með að fólk væri á þeim stað sem það segðist vera.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við fréttastofu að mennirnir hafi komið með flugi fyrir fjórum dögum. Ekki séu öll kurl komin til grafar varðandi það hversu víðfeðmur þjófnaður mannanna voru en verið sé að fara yfir þýfið sem fannst í fórum mannanna.

Alls eru 10 lögreglumenn; 6 almennir og 4 rannsóknarlögreglumenn, og einn túlkur í sóttkví hjá lögreglunni á Suðurlandi. Hinir þrír eru hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst voru mennirnir tveir, sem reyndust jákvæðir, nærri einkennalausir. Þeir eru vistaðir hjá lögreglunni á Suðurlandi að beiðni sóttvarnalæknis þar til niðurstöður mótefnamælingar liggja fyrir. Það er ekki einsdæmi að lögregla sé kölluð til að kröfu sóttvarnalæknis til að skikka menn í einangrun þótt það sé ekki algengt.

Oddur segir að reynist mennirnir ekki með mótefni og séu því með COVID-19 þurfi að útvega húsnæði fyrir þá því ekki sé hægt að hafa þá í gæslu í fangelsi. Mennirnir gætu jafnframt átt yfir höfði sér sekt fyrir að brjóta gegn skyldu um að fara í sóttkví. Hún getur numið frá 50 þúsund til 250 þúsund krónum en sektin ákvarðast eftir alvarleika brotsins.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV