
Salatfeti verður Salatostur
Málið má rekja til fyrirspurnar gríska Evrópuþingmannsins Emmanouil Fragkos sem í apríl lagði fram fyrirspurn um fetaostframleiðslu MS. Í kjölfarið fór framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram á við íslensk stjórnvöld að þau sæu til þess að MS notaði ekki heitið Feta. Nafnið á ostinum er upprunavarið og því má ekki kalla sambærilega osta þessu nafni séu þeir framleiddir utan Grikklands.
Hálfdán Óskarsson, eigandi Örnu, segir að enginn hafi haft samband við sig vegna málsins. Engu að síður hyggist hann breyta nafni ostsins.
Einkaréttur Grikkja engar nýjar fréttir
„Við breytum því bara. Hann mun heita salatostur. Það er bara lýsandi fyrir vöruna og það er bara rétta nafnið.“
Hálfdán segir að það séu engar nýjar fréttir að Grikkir hafi einkarétt á þessu vöruheiti. „Þetta er náttúrulega upphaflega geita- og sauðaostur, þeir vilja ekki viðurkenna að ostur framleiddur úr kúamjólk sé feti og þeir hafa einkarétt á því. Við getum ekki notað það lengur.“
Vissirðu þetta þegar þú hófst framleiðslu á þessum osti? „Já, þetta hafa allir vitað lengi. Það hefur verið seldur Feti frá MS hérna lengi og ekki gerðar neinar athugasemdir við það. Þannig að við bara gerðum okkar Salatfeta og núna breytum við honum í Salatost.“