„Mikill léttir fyrir marga að sjá þetta smella“

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur - rúv
Prufukeyrsla á skimunarferli fyrir Covid-19 á Keflavíkurflugvelli sem fram fór í dag gekk vel að sögn almannavarna og landlæknis. Verkefnastjóri hjá almannavörnum segir að þriggja mánaða vinna hafi verið unnin á örfáum dögum, og það sé léttir fyrir marga að sjá ferlið smella saman.

Undanfarna daga hefur fjöldi fólks unnið að því að setja upp kerfi til að halda utan um sýnatöku á Keflavíkurflugvelli, en allir verða skimaðir fyrir Covid-19 við komuna til landsins frá og með mánudeginum, nema þeir sem koma frá Grænlandi og Færeyjum. Ferlið var allt prófað á sérstakri æfingu í dag.

„Þetta lofar bara mjög góðu. Gaman að sjá þetta risa mannvirki og allur tölvubúnaður klár og þetta er allt að virka. Þetta er bara mjög mikill léttir fyrir mjög marga að sjá þetta smella svona saman. Þetta er í rauninni gríðarleg vinna sem er búið að vinna núna undanfarna daga. Her manns sem er búinn að vinna að þessu. Þetta er í rauninni þriggja mánaða vinna sem er búið að kreista niður í átta daga,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, verkefnastjóri hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra.

Að ýmsu að huga

Það hefur verið að ýmsu að huga, til dæmis þarf að þróa hugbúnað, þjálfa starfsfólk og setja upp sérhannaða sýnatökuklefa sem voru settir upp í dag. 

Ferlið við komuna til landsins verður þannig að allir verða að vera búnir að fylla út forskráningarform á Covid.is, eða í sérstökum básum í flugstöðinni. Farþegarnir fara svo upp í sýnatöku, og halda síðan för sinni áfram í flugstöðinni. Miðað er við að niðurstaða sýnatökunnar liggi fyrir fimm tímum eftir strokuna, nema hún sé tekin að kvöldi, þá tekur hún lengri tíma. 

Búið að sérþjálfa 40 manns til að sinna skimuninni

Búið er að þjálfa fjörutíu manns sérstaklega til að sinna sýnatöku á vellinum.

„Við erum búin að sérþjálfa fólk frá Öryggismiðstöðinni, sem eru þrjátíu manns, og síðan tíu manns frá Icelandair. Og síðan eru heilbrigðisstarfsmenn, læknar og hjúkrunarfræðingar sem eru handleiðarar fyrir þetta fólk sem er verið að þjálfa. Það eru aðilar frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, heilsuvernd og svo er Íslensk erfðagreining líka búin að vera með okkur í gegnum þetta,“ segir Jórlaug Heimilsdóttir, verkefnisstjóri sýnatöku á Keflavíkurflugvelli. 

Landlæknir var á meðal þeirra sem fylgdist með æfingunni í dag.

„Þetta er búin að vera mikil vinna, en gaman að sjá að þetta gekk allt vel og allt virkaði. Ég hef fulla trú á að þetta gangi og það verður ennþá meira spennandi að vita hvernig gengur á mánudaginn. Hvað kemur út úr sýnatökunni, hverjar niðurstöðurnar verða. Og það vitum við á þriðjudaginn vonandi,“ segir Alma Möller landlæknir. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi