Löngu tímabært uppgjör við hvíta kynþáttahyggju

Mynd: EPA-EFE / EPA

Löngu tímabært uppgjör við hvíta kynþáttahyggju

13.06.2020 - 13:30

Höfundar

„Hvítt fólk getur ekki lengur hlíft sér við því að aflæra þá samfélagslegu mótun sem við höfum orðið fyrir, við höfum verið forrituð með hvítri kynþáttahyggju og ekkert okkar er undanskilið og við höfum enga afsökun,“ segir Marta Sigríður Pétursdóttir, pistlahöfundur Lestarinnar á Rás 1.

Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Við lifum á sögulegum tíma, löngu tímabært uppgjör er hafið við hvíta kynþáttahyggju, heimsvaldastefnu og nýlenduarðrán Evrópuþjóða. Skelfileg áhrif COVID-19 faraldursins í samfélagi svartra í Bandaríkjunum og svo morðið á George Floyd hrundu af stað mótmælaöldu og Black Lives Matter mótmæli hafa nú breiðst út um allan heim og fleiri þjóðir en Bandaríkin þurfa að horfast í augu við syndir sínar. Í Bandaríkjunum hafa fjölmargar styttur af áður mærðum hvítum körlum sem kenndir eru við tímabil sambandsríkjanna og þar af leiðandi tíma þrælahalds verið skemmdar og krefjast mótmælendur þess að þær verði teknar niður. Í Bristol í Bretlandi var stytta af þrælasalanum Edward Colston tekin niður og hent í ána. Í Antwerpen í Belgíu var stytta af Leópold II konungi Belgíu, sem bar ábyrgð á hernámi Afríkuríkisins Kongó seint á 19. öld og ríkti yfir landinu með hrottalegu ofbeldi sem leiddi til dauða milljóna, skemmd og brennd svo yfirvöld neyddust til þess að taka hana niður, loksins.

Einn vinsælasti sælgætisframleiðandi á Íslandi heitir eftir aðalpersónu rasískrar barnabókar, ég á að sjálfsögðu við Sambó lakkrís frá Kólus fyrirtækinu. Árið 2016 kom upp hneykslismál sem tengdist umbúðum frá þeim þar sem notast var við rasískt og úrelt myndmál, Kristín Loftsdóttir prófessor í mannfræði sagði í viðtali við Vísi um málið að það sætti furðu að fyrirtækið vildi tengja við svo gamla kynþáttafordóma á meðan forstjóri fyrirtækisins sem einnig er vitnað í segir myndskreytinguna alls ekki vera rasíska og segist jafnframt ekki skilja hvað sé að fólki sem sé að gera mál úr þessu og kallar þetta móðursýki. Þetta er bara eitt dæmi úr íslensku samfélagi um birtingarmyndir rasisma.

Hvítt fólk getur ekki lengur hlíft sér við því að aflæra þá samfélagslegu mótun sem við höfum orðið fyrir, við höfum verið forrituð með hvítri kynþáttahyggju og ekkert okkar er undanskilið og við höfum enga afsökun, við höfum aðgang að gríðarlegu magni upplýsinga í gegnum internetið. Staðreyndirnar og sagan eru beint fyrir framan nefið á okkur. Afneitun og þögn eru sama og samþykki.

Í vikunni deildi Sema Erla Serdar, sem barist hefur ötullega gegn rasisma og hatursorðræðu í íslensku samfélagi, myndbandi á Facebook þar sem ekki fer á milli mála að leikarinn Pétur Jóhann Sigfússon segir félögum sínum, Agli „Gillz“ Einarssyni og Aroni Pálmarssyni rasískan brandara.  Þeir veltast um af hlátri en uppistandarinn Björn Bragi deildi myndbandinu á opinni Instagram-síðu sinni. Árið 2017 sýndi Stöð 2 ferðaþátt með Pétri Jóhanni sem hét Asíski draumurinn, á kynningarmyndinni fyrir þáttinn má sjá Pétur Jóhann, Auðunn Blöndal, Sveppa og Steinda klædda í gervi súmókappa, geisju, búddamúnks og samúræja.

Mynd með færslu
 Mynd: Stöð 2
Kynningarmynd fyrir Asíska drauminn.

Í Facebook-hópnum Kvikmyndaáhugamenn spannst mikil umræða í gær um þá ákvörðun Netflix og BBC iplayer að fjarlægja þættina Little Britain vegna þess að „tímarnir hafa breyst“, eins og segir í fyrirsögn BBC um það. Í þáttunum, sem hafa elst einstaklega illa, er þeim félögum fátt heilagt og þeir ganga svo langt að taka á sig gervi svarts fólks. Sú hugmynd að hvítt fólk geti brugðið sér í gervi svartra og sett á sig svokallað „blackface“, eða klætt sig upp sem asískar staðalímyndir, verður ekki lengur umborin. Í umræðuþræðinum inni á kvikmyndaáhugamönnum voru viðbrögð margra við því að Little Britain teljist ekki lengur boðlegt sjónvarpsefni svipuð og framkvæmdastjóra Kólus þegar fyrirtæki hans var réttilega gagnrýnt fyrir rasísku myndskreytinguna. Margir sem setja athugasemdir í þráðinn hneykslast á ritskoðuninni og fordæma pólitískan rétttrúnað, og rísa upp til varnar hinu svokallaða málfrelsi. Málfrelsi hvítra verður hér mikilvægara en mennska svartra, það er rasismi.

Nú þegar maður fylgist með réttlætinu og sannleikanum líta dagsins ljós í óeirðunum kviknar óþægileg spurning, af hverju er ekki löngu búið að taka niður þessar styttur og búið að breyta nafninu á íslenska sælgætinu og af hverju erum við, og þegar ég segi við á ég við hvítt fólk, ekki löngu búin að horfast í augu við söguna, ekki bara söguna í fortíð heldur söguna eins og hún birtist og lifir í samtímanum?

Við blasir sú óumdeilanlega staðreynd að rasisminn fór aldrei neitt, heldur stökkbreyttist og varð kannski bara betur falinn. Á Íslandi erum við með Útlendingastofnun sem flugmálastjórinn Agnar Kofoed-Hansen kom á laggirnar eftir að hafa verið sendur, árið 1939, á sumarnámskeið hjá SS-sveitum Hitlers í Þýskalandi. Útlendingastofnun er því byggð á grunni þeirrar innrætingar sem Agnar verður fyrir hjá nasistum. Þannig hafa valdastrúktúrar viðhaldið misskiptingu og ofbeldi gegn svörtu fólki í Bandaríkjunum í formi löggæslu, fangelsiskerfis og stríðsins gegn eiturlyfjum svo fátt eitt sé nefnt. Í einkareknum fangelsum í Bandaríkjunum sitja milljónir fanga og vinna launalaust við alls kyns framleiðslu fyrir alls konar stórfyrirtæki. Þrælahald 21. aldarinnar. 

Þessi pistill átti að fjalla um kvikmyndir, sjónvarpsþætti og heimildarmyndir sem fræða áhorfendur um kerfisbundinn rasisma. Staðreyndin er sú að allar þær bækur, kvikmyndir, sjónvarpsþættir og svo framvegis, sem allir helstu fjölmiðlar keppast við að draga saman í lista fyrir almenning um þessar mundir, voru aðgengilegar áður en Derek Chauvin lagði hné sitt á háls George Floyd í átta mínútur og 46 sekúndur sem leiddu til dauða hans 25. maí.  Það gefur því auga leið að það dugir ekki til eitt og sér að horfa bara á kvikmyndir eða lesa bækur til þess að sigrast á mörg hundruð ára kúgun og kynþáttahatri, og ef mótmæli síðustu vikna sýna okkur eitthvað þá er það að uppreisn og borgaraleg óhlýðni er stundum það eina sem virkar.

Hins vegar eru eftirfarandi kvikmyndir, heimildarmyndir og sjónvarpsþættir sem eru aðgengilegir áskrifendum Netflix á Íslandi skylduáhorf: Heimildamyndin 13th eftir Ava DuVerny, sem fjallar um tengsl bandaríska fangelsiskerfisins og þrælahalds, sjónvarpsþættirnir When They See Us, sem Ava DuVerny leikstýrir einnig og byggjast á sönnum atburðum þegar fimm ungir svartir drengir voru ranglega ásakaðir um morð á hvítri konu sem var að skokka í Central Park árið 1989,  If Beale Street Could Talk eftir Barry Jenkins leikstjóra Moonlight, sem byggist á samnefndri skáldsögu James Baldwin, Dear White People, Flint Town, The Kalief Broder Story og svo framvegis.

Sambíóin, einu opnu bíóhúsin á landinu, sýna um þessar mundir kvikmyndina Just Mercy sem fjallar um lögfræðing sem reynir að gera úrbætur á lagakerfi Alabama. Sú kvikmynd er nú aðgengileg áhorfendum í Bandaríkjunum frítt, sem fræðsluefni um kerfisbundinn rasisma. Einnig er væntanleg á Netflix eftir tvo daga ný kvikmynd eftir Spike Lee, Da 5 Bloods, sem segir sögu svartra hermanna sem börðust í Víetnamstríðinu. Ef þú ert ekki áskrifandi að Netflix þá hefur streymisveitan gert heimildarmyndina 13th aðgengilega á Youtube.

Á síðustu tveimur árum hef ég svo hlotið mikilvæga menntun á Instagram frá svörtum konum frá Bretlandi og Bandaríkjunum, þeim Laylu Saad, Shishi Rose, Aja Barber og Rachel Cargle auk margra fleiri. Í byrjun þessa árs kom út bók Laylu Saad, Me and white supremacy: Combat Racism, Change the World, and become a good Ancestor. Tilurð bókarinnar má rekja til áskorunar sem Layla Saad lagði fyrir hvíta fylgjendur sína á Instagram, sem var að horfast í augu við eigin hvíta kynþáttahyggju, hvít forréttindi og hvíta viðkvæmni. Það er bæði óþægilegt og óbærilegt að horfast í augu við hvað það þýðir að vera hvít manneskja í heiminum í dag, þessi óþægindi eru þó smávægileg í samanburði við þær þjáningar sem svart fólk hefur gengið í gegnum. Að brjóta á bak aftur aldagamlan, alltumlykjandi og inngróinn rasisma virðist vera óyfirstíganlega stórt verkefni, en góðu fréttirnar eru þær að það byrjar mun nær en okkur grunar, nefnilega hjá okkur sjálfum.

Tengdar fréttir

Erlent

Kristófer Kólumbus afhöfðaður og fleygt í vatn

epa08475449 Dray Tate sings 'A Change is Going to Come' while a collage of protests plays on a video screen and and visual artist Ange Hillz creates a painting of George Floyd during the funeral for George Floyd at The Fountain of Praise church in Houston, Texas, USA, 09 June 2020. A bystander's video posted online on 25 May, appeared to show George Floyd, 46, pleading with arresting officers that he couldn't breathe as an officer knelt on his neck. The unarmed Black man later died in police custody and all four officers involved in the arrest have been charged and arrested.  EPA-EFE/Godofredo A. Vasquez / POOL
Erlent

George Floyd borinn til grafar í Texas

Menningarefni

Íslenska mannflóran

Myndlist

Síðustu orð Floyds svífa yfir borgum Bandaríkjanna