Átök milli mótmælenda og lögreglu í London

13.06.2020 - 17:37
epa08483357 Police in Trafalgar Square during a Black Lives Matter (BLM) demonstration in London, Britain, 13 June 2020. Protesters gathered to express their feelings about the killing of George Floyd. The 46-year-old Floyd died in police custody in Minneapolis, Minnesota, USA, on 25 May 2020, after an officer pressed a knee on the neck of the handcuffed African-American man lying on the ground for almost nine minutes.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Átök urðu á milli mótmælenda og lögreglu í miðborg London í dag, en fólkið var þar saman komið til að verja styttur og minnismerki borgarinnar fyrir fólki sem var þar á samkomu gegn kynþáttahatri.

Í frétt BBC segir að í hópnum sem vildi verja stytturnar sé fólk sem tengist hægri-öfgahópum og að það hafi komið gagngert til London til að verja menningararfleið landsins. Fólkið raðaði sér í kringum Cenotaph stríðsminnismerkið og styttu af Winston Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hrópaði „England“ og lyfti höndum yfir höfuð sér um leið og það gerði áhlaup á lögreglu sem hafði raðað sér upp. Flöskum, lausamunum og flugeldum var kastað að lögreglu. 

Á sama tíma var haldin samkoma gegn kynþáttahatri í Hyde Park, þangað stefndu mótmælendurnir, en lögreglu tókst að stöðva þá.

Óásættanlegt ofbeldi

Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, fordæmdi átökin og sagði þau „óásættanlegt ofbeldi“. Í sama streng tók Sadiq Khan, borgarstjóri í London, sem hvatti mótmælendur til að „fara þegar í stað á brott“ til að koma í veg fyrir frekara ofbeldi og til að hindra útbreiðslu kórónaveirunnar í borginni.

Talsvert hefur verið um mótmæli í London og víðar í Bretlandi undir kjörorðinu Black Lives Matter vegna dauða Georges Floyds í Minneapolis í Bandaríkjunum. Meðal annars veltu mótmælendur styttu af Edward Colston, 17. aldar þrælasala, af stalli sínum í Bristol og veltu henni út í höfnina.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær að öfgamenn hefðu tekið mótmælin yfir og gagnrýndi þessa meðferð á styttum. Í kjölfarið voru girðingar settar upp í kringum nokkrar styttur og minnismerki í London.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi