Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Vill að sveitarfélög ræði saman vegna fiskeldis

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Sveitarfélög á Norðurlandi eru á öndverðum meiði um hvort fiskeldi í Eyjafirði eigi að vera leyfilegt. Sjávarútvegsráðherra boðaði til fundar í Hofi í gær þar sem málefnið var rætt. Spurður hvort hann vildi friða Eyjafjörð fyrir sjókvíaeldi sagði ráðherrann hans persónulega mat ekki skipta máli.

Sjávarútvegsráðuneytið hefur óskað eftir umsögnum um hvort rétt sé að lýsa yfir banni við fiskeldi í þremur fjörðum, þar á meðal Eyjafirði. Sveitarfélög við Eyjafjörð eru mjög ósammála um hvort sjókvíaeldi eigi að vera leyfilegt í firðinum.

Sveitarfélög ósammála um næstu skref

Bæjarstjórnin á Akureyri er klofin í afstöðu sinni til þess hvort friða skuli Eyjafjörð fyrir eldi eða ekki. Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar telur mikla möguleika felast í fiskeldi og Fjallabyggð leggur til að ráðherra óski eftir burðarþolsmati nú þegar. Grýtubakkahreppur og Svalbarðsstrandarhreppur leggjast gegn eldi. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra ásamt Dalvíkurbyggð segja lykilatriði að haft sé samráð við sveitarfélög og íbúa. 

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir ályktanir sveitarstjórna eiga það sameiginlegt að gerð sé krafa um að ekki verði teknar ákvarðanir án samráðs við sveitarfélög og íbúa á svæðinu. Það segir hann sjálfsagt mál og sé ein af ástæðum fundarhalda í Hofi ásamt að hafa óskað formlega eftir umsögnum. 

Friða fjörðinn eða óska eftir burðarþolsmati?

Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, segir mikið náttúruverndarmál að friða fjörðinn fyrir fiskeldi, enda sé þar að finna um 40% af öllum sjóbleikjustofni landsins. Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis hvetur ráðherra til að óska eftir burðarþols- og áhættumati, „til þess að það sé kominn grundvöllur fyrir sveitarstjórnirnar á svæðinu til að ræða málið til hlítar“.

Hefur ekki þótt liggja á burðarþolsmati

Kristján Þór segir ýmsar ástæður fyrir því að hann hafi ekki óskað eftir burðarþolsmati. Löggjöf um fiskeldi hafi verið til endurskoðunar sem og áhættumat fyrir laxeldi. Málin hafi einfaldlega verið í það mikilli gerjun að honum hafi ekki þótt liggja mikið á, auk þess séu engar gildar umsóknir á svæðinu.

Ætlarðu að óska eftir burðarþolsmati? „Það verður bara að koma í ljós. Ég treysti því að sveitarfélögin reyni með einhverjum hætti að ná saman um svona megin áherslu í næstu skrefum,“ segir Kristján Þór.

Aðspurður hvort hann vilji friða Eyjafjörðinn fyrir sjókvíaeldi svarar hann að hans persónulega mat skipti ekki máli í þessum efnum.