Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

U-beygja hjá NFL varðandi kynþáttamisrétti

epa06758083 (FILE) - San Francisco 49ers back-up quarterback Colin Kaepernick (C), San Francisco 49ers outside linebacker Eli Harold (L), and San Francisco 49ers free safety Eric Reid (R) take a knee during the US national anthem before the NFL game
 Mynd: EPA

U-beygja hjá NFL varðandi kynþáttamisrétti

12.06.2020 - 16:10
NFL-deildin í bandarískum fótbolta ætlar að verja 250 milljónum dollara á næstu tíu árum í að berjast gegn kerfisbundnu kynþáttamisrétti þar í landi. Fyrir tveimur árum bannaði deildin mótmæli gegn kynþáttamisrétti undir þjóðsöngnum.

Í síðustu viku greindi deildin frá því að leikmenn hennar mættu mótmæla friðsamlega á meðan þjóðsöngurinn væri spilaður. Friðsamleg mótmæli leikstjórnandans Colin Kaepernick fyrir nokkrum árum vöktu mikla athygli þegar hann kraup á hné þegar þjóðsöngurinn var spilaður fyrir leiki San Fransisco 49ers sem hann lék með á þeim tíma. Meðal annarra gagnrýndi Donald Trump Bandaríkjaforseti þá athöfn hans harðlega og Kaepernick sjálfur fékk líflátshótanir í kjölfarið. Margir leikmenn léku það eftir en Kaepernick hefur verið samningslaus síðan 2017 og segir að félög hafi haft samráð um að ráða hann ekki vegna mótmælanna. Í maí 2018 tilkynnti NFL deildin svo að lið yrðu sektuð ef leikmenn þeirra krjúpi á kné þegar þjóðsöngurinn er í gangi. Sú regla var þó dregin til baka í júlí sama ár.

Nú fyrst, í ljósi mikilla mótmæla í Bandaríkjunum í kjölfar morðsins á George Floyd, hefur Roger Goodell, framkvæmdastjóri NFL deildarinnar, sagt að stjórnendur hefðu átt að hlusta á skilaboð og mótmæli leikmanna deildarinnar fyrr. NFL stjörnur á borð við Patrick Mahomes og Odell Beckham Jr. kröfðust þess að deildin myndi fordæma kynþáttamisrétti og kúgun á þeldökkum í Bandaríkjunum.

Stjórnendur deildarinnar hafa því tekið sannkallaða U-beygju í sinni nálgun og hafa nú tilkynnt að á næstu tíu árum verði 250 milljónum dollara veitt í baráttuna gegn kerfisbundnu kynþáttamisrétti. Fjárveitingin fari baráttuna gegn viðvarandi og sögulegu óréttlæti sem þeldökkir Bandaríkjamenn hafa orðið fyrir.

Tengdar fréttir

Norður Ameríka

NFL hvetur leikmenn til að mótmæla friðsamlega

Stjórnmál

Colin Kaepernick og NFL ná samkomulagi