„Tók ást móður minnar sem sjálfgefnum hlut“

Mynd: Erlendur Sveinsson / Svarthvítur draumur

„Tók ást móður minnar sem sjálfgefnum hlut“

12.06.2020 - 14:24

Höfundar

„Ég ætti að sýna manneskjunni sem fæddi mig í þennan heim meira þakklæti,“ segir Fannar Ingi Friðþjófsson tónlistarmaður í nýrri mynd um hljómsveitina Hipsumhaps sem frumsýnd er í kvöld. Skjót velgengni félaganna hefur verið þeim lærdómsríkt ferli.

Tónlistarmennirnir Fannar Ingi Friðþjófsson og Jökull Breki Arnarsson stofnuðu hljómsveitina Hipsumhaps fyrir sex árum síðan. Þeir kynntust í heimabæ sínum, Álftanesi, þar sem Fannar var flokkstjóri þess síðarnefnda í unglingavinnunni. Samstarf þeirra hófst nokkrum árum síðar og vöktu fljótt mikla athygli þegar þeir byrjuðu að senda frá sér lög, fyrir nýstárlegan hljóm og frumlega textasmíð. Þeir voru meðal annars kjörnir bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár.

Í kvöld verður frumsýnd ný tónlistarmynd um líf liðsmanna Hipsumhaps á tímum þegar allt tekur óvæntum breytingum. Tvíeykið er á persónulegu nótunum og opnar sig um ýmislegt sem tengist nýtilkominni frægð og uppgötvunum sem þeir hafa gert um heiminn og sjálfan sig síðan ferillinn fór á flug. Fannar Ingi kveðst hafa lært mikið af reynslunni og segir meðal annars frá því hve súrrealísk tilfinning það var að heyra lög þeirra félaga leikin í útvarpi. „Ég var látinn vita mjög reglulega af því að það væri verið að spila okkur,“ segir hann og bætir því við að fyrst um sinn hafi hann látið sem honum þætti gaman að heyra í sjálfum sér í viðtækinu, en ekkert tiltökumál. Sannleikurinn var hins vegar að athyglin gerði hann líka stressaðan. „Ég var bara mjög óöruggur með það ef ég á að segja eins og er.“

Síðustu misserin hefur Fannar líka öðlast nýja sýn á samband sitt við móður sína. „Í gegnum menntaskólaárin mín, allt þar til fyrir nokkrum árum, hef ég tekið ást móður minnar sem mjög sjálfgefnum hlut en ekki sýnt henni nógu mikla athygli,“ segir hann. „Það var ekki fyrr en fyrir nokkrum árum sem ég fer að kynnast henni sem tilfinningaveru, Þó svo hún hafi verið kletturinn minn í gegnum tíðina, þá hefur hún líka sínar áhyggjur og vandamál sem ég hafði ekki spáð í því ég var svo upptekinn af sjálfum mér.“ Hann segist hafa áttað sig á því að fjölskyldan sé það sem skiptir hann mestu máli í lífinu. „Ég ætti að sýna meira þakklæti til manneskjunnar sem fæddi mig í þennan heim.“

Tónlistarmyndin Svarthvítur draumur í leikstjórn Erlends Sveinssonar er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 20.55. Hljóðfæraleikur á upptökum með sveitinni er í höndum Bergs Einars Dagbjartssonar, Magnúsar Jóhanns Ragnarssonar og Ólafs Alexanders Ólafssonar.

Tengdar fréttir

Tónlist

Nýtt myndband úr væntanlegri mynd frá Hipsumhaps

Tónlist

„Þetta er lífið sem okkur langar í“

Popptónlist

Hipsumhaps - Best gleymdu leyndarmálin