Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Þjálfari tók upp kynferðisbrot sitt gegn 13 ára stúlku

12.06.2020 - 16:21
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Landsréttur staðfesti í dag þriggja ára fangelsisdóm yfir karlmanni á þrítugsaldri fyrir að nauðga þrettán ára stúlku. Maðurinn var 22 ára þegar hann braut á stúlkunni. Maðurinn hafði um skeið þjálfað stúlkuna í íþróttum einu eða tveimur árum fyrir brotið.

Maðurinn gaf stúlkunni áfengi, hafði við hana samræði og lét hana hafa við sig munnmök. Hann misnotaði sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni, í krafti aldurs og þess að hann var fyrrverandi þjálfari stúlkunnar. Auk þess beitti maðurinn hana ofbeldi. 

Maðurinn sagðist hafa haft mök við stúlkuna en neitaði að hafa brotið gegn henni. Hann sagðist ekki hafa vitað að hún væri yngri en fimmtán ára. Dómurinn hafnaði þeim málflutningi mannsins, meðal annars með vísun til þess að hann þjálfaði stúlkuna. Þá er tekið fram í dómi Héraðsdóms Vesturlands að faðir stúlkunnar hafði reynt að fá manninn til að halda sig fjarri henni vegna þess hversu ung hún var. Í þeim dómi kemur einnig fram að maðurinn tók upp tvö myndskeið af brotum sínum gegn stúlkunni og vistaði þau í sérstakri möppu í síma sínum.

Maðurinn er ekki nafngreindur í dóminum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV