Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Þarf að byggja hærra svo framkvæmdir svari kostnaði

12.06.2020 - 16:05
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar segir að tekið verði tillit til áhyggja Isavia varðandi tillögur að breyttu aðalskipulagi á Oddeyri. Isavia telur að gangi þær eftir geti það dregið úr notagildi Akureyrarflugvallar.

Yfir 70 athugasemdir og umsagnir bárust skipulagsráði Akureyrar um nýja tillögu að byggingu á Gránufélagsreit á Oddeyri. Fyrstu áform sem kynnt voru í vetur gerðu ráð fyrir allt að ellefu hæða húsi á reitnum sem var mjög umdeilt, en ný tillaga gerir ráð fyrir sex til átta hæða húsum.

„Við erum að byggja á verðmætu svæði sem er áberandi á Akureyri og í nálægð við eldri byggð. Flestallar athugasemdirnar sem eru gegn uppbyggingunni snúa að hæð bygginganna. En á sama móti er í flestum athugasemdum áhugi á uppbyggingu á svæðinu. Það eru skilaboðin sem við fáum núna í þessu ferli sem fram undan er, hvar við eigum að stíga niður,“ segir Tryggvi Már Ingvarsson, formaður skipulagsráðs.

Hljóðvist betri nú en í eldri húsum á svæðinu

Í umsögn Isavia koma fram áhyggjur varðandi hljóðvist vegna bygginga í fluglínu, sem gæti leitt til þess að kröfur yrðu gerðar um flugtakmarkanir á ákveðnum tímum sólarhrings. Tryggvi segir að við hönnun yrði tekið tillit til þess, enda ætti hljóðvist í nýjum húsum að vera betri en í eldri húsum eins og þeim sem þegar eru á svæðinu. 

Áhættan á að vera á framkvæmdaraðila

Tryggvi bendir á að svo hægt sé að byggja á reitnum þurfi að kaupa upp eignir sem fyrir eru, en sá kostnaður verði sennilega yfir 300 milljónir króna. Því þurfi að byggja hærra en nálæg hús til þess að það borgi sig að hefja framkvæmdir.

„Hinn kosturinn er að Akureyrarbær myndi kaupa upp eignir á svæðinu og úthluta. Það í raun og veru er áhættufjárfesting fyrir sveitarfélagið sem ég er ekki viss um að skattgreiðendur séu tilbúnir að fara í. Ég persónulega er hrifnari af því að það sé þróunaraðilinn sem taki þá áhættu og vinni með bænum.“

„Kannski ekki alltaf allir sáttir“

Skipulagsráð boðar áfram virkt samráð við íbúa og hverfasamtök.

„Við þurfum að finna einhverja leið sem myndi ná að sætta sem flesta, en það verða kannski ekki alltaf allir sáttir,“ segir Tryggvi Már Ingvarsson, formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar.