Svona lítur nýja PlayStation 5 tölvan út

Mynd með færslu
 Mynd: Sony - YouTube

Svona lítur nýja PlayStation 5 tölvan út

12.06.2020 - 10:12
Sony hefur nú opinberað útlit PlayStation 5 tölvunnar sem væntanleg er á þessu ári. Mikil eftirvænting hefur skapast í kringum tölvuna sem spilarar hafa margir beðið lengi eftir enda sjö ár síðan PlayStation 4 kom út.

Í tilkynningu Sony var útlit tölvunnar loks opinberað en áður hafði útlit og virkni fjarstýringarinnar verið kynnt. Þar er um að ræða glænýja tækni en fjarstýringin, Dual Sense, á að bæta við og auka skynjun þegar leikir eru spilaðir. Ef þú til dæmis keyrir um í leðju í leik þá munt þú finna fyrir því. Ásamt tölvunni og fjarstýringunni voru diskalaus tegund tölvunnar (e. digital), heyrnartól, sjónvarpsfjarstýring og myndavél sömuleiðis kynnt. 

Tístverjar voru mis jákvæðir á Twitter og einhverjum finnst útlitið einfaldlega minna á netbeini (e. wifi router) og báru hana saman við nýju Xbox tölvuna, Series X, sem hefur þótt minna á ísskáp. Aðrir voru sannfærðir um að í fjórða skiptið hefðu byggingar verið innblástur hönnunarinnar. 

Geir Finnsson, tölvuleikja- og tæknisérfræðingur RÚV núll, segir Sony fara frekar örugga leið með tölvuna sem sé þó alls ekki slæmt. Tölvan sjálf og fjarstýringin svipi til PlayStation 4 sem naut mikilla vinsælda og því óþarfi að breyta mikið til. „Hönnun tölvunnar leggst vissulega misvel í fólk, en mér þykir hún skítsæmileg. Diskalausa útgáfan er stílhreinni og sennilegt að ég stökkvi á hana,“ bætir Geir við. 

Auk útlitsins þá voru nokkrir leikir kynntir sem Geir segir lofa virkilega góðu. Fyrsti leikurinn sem var sýndur var Grand Theft Auto V sem kom fyrst út á PlayStation 3 og Xbox 360 árið 2013 og hefur síðan verið endurútgefinn fyrir PlayStation 4 og fleiri tölvur. Fáeinar nýjungar verða í PlayStation 5 útgáfunni. 

Annar leikur sem Geir segist spenntur fyrir er leikurinn Demon's Souls sem kom í fyrsta og eina skipti út á PlayStation 3 árið 2009. Hann verður endurgerður frá grunni fyrir PlayStation 5 eins og nýr leikur. Geir segir þessa tilkynningu hafa vakið mikla athygli þar sem leikurinn hefur lengi verið álitinn einn af erfiðustu tölvuleikjum seinni tíma. 

Enn er talsvert af ósvöruðum spurningum í kringum tölvuna en enn hefur útgáfudagur og verð ekki verið tilkynnt, hún kemur þó út á þessu ári. Fleiri myndbönd af væntanlegum leikjum og kynningu Sony í heild sinni má sjá á YouTube síðu fyrirtækisins. 

Tengdar fréttir

Kynning á fjarstýringu í hlýrabol sniðug markaðssetning

PlayStation 2 fallin frá