Svíar renna hýru auga til Íslands 

12.06.2020 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flest bendir til þess að Ísland verði eina norræna ríkið þar sem sænskum ferðamönnum verður ekki gert að fara í sóttkví við komuna til landsins í sumar. Norðmenn tilkynntu þó í dag að þeir muni opna landamæri sín fyrir Gotlendingum.

Sænska ríkisútvarpið SVT fjallar um málið og segir Ísland vera eina norræna landið sem Svíar geta ferðast til. Þeir verða þó að fara í sýnatöku eins og aðrir ferðamenn sem hingað koma.  

Norsk stjórnvöld tilkynntu svo nú síðdegis að þau muni opna landamæri sín fyrir Gotlendingum, en það sama gildir ekki um íbúa annarra hluta Svíþjóðar. Norðmönnum er þó áfram ráðlagt að láta Svíþjóðarferðirnar eiga sig og  krafa verður áfram gerð um 10 daga sóttkví fyrir þá sem ferðast utan Gotlands.

Finnar opnuðu svo landamæri sín fyrir Dönum, Norðmönnum, Íslendingum og íbúum Eystrasaltsríkjanna á fimmtudag en þau verða áfram lokuð fyrir Svíum af sömu ástæðum. 

Dönsk stjórnvöld krefjast þess þá að allir sem komi frá Svíþjóð fari í fjórtán daga sóttkví. Þau ráða ennfremur þeim 10.000 Dönum sem eiga sumarhús í Suður-Svíþjóð frá því að nýta þau í sumar. Sú krafa hefur vakið litla hrifningu hjá mörgum sumarhúsaeigendum, en yfirvöld á svæðinu hafa þegar tilkynnt að sjúkrahús á svæðinu séu undir það búin að taka á móti erlendum ferðamönnum reynist þess þörf.

Leiðrétt 16:44 Gautland var upphaflega skrifað þar sem átti að standa Gotland.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi