Sex ára dómur þyngdur í tíu ára fangelsisvist

12.06.2020 - 15:46
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Landsréttur þyngdi í dag dóm sem Sigurður Sigurðsson hlaut fyrir tilraun til manndráps. Héraðsdómur Austurlands dæmdi hann til sex ára fangelsisvistar á síðasta ári en Landsréttur taldi tíu ár í fangelsi vera hæfilega refsingu. Sigurður gekk frá heimili sínu vopnaður tveimur hnífum eins og hálfs kílómetra leið. Þar réðist hann á annan mann og stakk hann margsinnis. Árásinni linnti ekki fyrr en þolandinn náði að flýja inn í næsta hús og fela sig.

Í dómi Landsréttar segir að Sigurður hafi ráðist að manninum með heiftúðlegum hætti. „Gögn málsins bera ótvírætt með sér að atlaga ákærða var lífshættuleg og réð hending ein því að ekki hlaust bani af,“ segir í dóminum. Dómurum við Landsrétt þykir því ljóst að Sigurður hugðist drepa manninn.

Sigurður var ósáttur við að maðurinn sem varð fyrir árásinni væri í sambandi við konu sem Sigurður hafði verið í stuttri sambúð með. Fyrir árásina hafði hann haft í alvarlegum hótunum.

Landsréttur hækkaði líka bætur sem Sigurður verður að greiða manninum sem hann reyndi að drepa. Héraðsdómur Austurlands taldi tæpar tvær milljónir hæfilega bótagreiðslu en Landsréttur hækkaði upphæðina í tæpar 2,7 milljónir. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi