Segir reynt að slá ryki í augu sjóðsfélaga vegna Bakka

12.06.2020 - 15:18
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Stjórnarformaður Frjálsa lífeyrissjóðsins segir það umhugsunarefni að stjórnarmaður í sjóðnum reyni að draga úr trúverðugleika annarra stjórnarmanna og ítrekar að í ársreikningi sjóðsins hafi verið farið að reglum Fjármálaeftirlitsins.

Eins og fréttastofa fjallaði um í vikunni þá benti stjórnarmaður í Frjálsa lífeyrissjóðnum á það að sjóðurinn hafi ekki ætlað að greina frá því í ársreikningi að hann hefði samþykkt að lækka virði hlutabréfa sinna um 700 milljónir króna í kísilveri PCC á Bakka.

Ásdís Eva Hannesdóttir, stjórnarformaður Frjálsa lífeyrissjóðsins, bendir á í athugasemdum um málið sem fréttastofa hefur undir höndum að upplýsingar í ársreikningi séu í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins. Reglur gera kröfu um að lífeyrissjóðir birti upplýsingar um breytingar á eignarhlut í félögum og sjóðum sem ná yfir 20 stærstu fjárfestingar sjóðanna. Málefni Bakka falli ekki þar undir og lækkun gangvirðisbreytingarinnar hafi numið 0,25% af eignum sjóðsins.

Áherslan hafi fyrst og fremst verið á að veita upplýsingar um heildartekjur allra fjárfestinga sjóðsins, sem sé það sem endurspegli ávöxtunina. Raunin sé sú að ávöxtunin árið 2019 var ein sú besta í sögu sjóðsins.

Reynt að draga úr trúverðugleika stjórnar

Halldór Friðrik Þorsteinsson, stjórnarmaður í sjóðnum, benti á það í Fréttablaðinu á miðvikudag að ekki hafi átt að greina frá niðurfærslunni varðandi fjárfestinguna á Bakka í ársreikningi. Hann gerði þann fyrirvara á staðfestingu reikningsins.

„Mér finnst að það þurfi að segja frá niðurfærslu á svona stórum fjárhæðum í ársreikningum lífeyrissjóða. Ársreikningar lífeyrissjóða eru fyrst og fremst upplýsingarit fyrir sjóðsfélaga og það á að vera algjört gegnsæi um allar ákvarðanir og fjárfestingar sjóðanna,“ sagði Halldór við fréttastofu á miðvikudag.

Ásdís segir það umhugsunarefni að stjórnarmaður reyni að slá ryki í augu sjóðsfélaga með því að gera tilraun til þess að draga úr trúverðugleika annarra stjórnarmanna. Það hafi verið ákveðið innan stjórnar að halda sig við að greina frá 20 stærstu fjárfestingum, en miðla svo upplýsingum um annað á vef sjóðsins og samfélagsmiðlum. Þannig ætti að stuðla að gagnsæi til sjóðsfélaga og Frjálsi lífeyrissjóðurinn sé í fararbroddi hvað það varðar.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi