Konan í afgreiðslunni mikilvæg
En ætlar lögreglan að setja sér markmið um að ná hlutfalli lögreglumanna af erlendum uppruna upp í ákveðna prósentu? „Þetta er klárlega eitt af þeim verkefnum sem eru á borðinu hjá okkur og þessi umræða hefur í rauninni flýtt því verkefni og sett það framar í röðina. Við ætluðum okkur alltaf að auka hlut lögreglufólks af erlendum uppruna og höfum unnið talsvert með pólskum lögregluyfirvöldum. Það er algjör breyting ef þú ert með pólskan lögreglumann sem getur séð um að túlka og koma öllu til skila, passa upp á upplýsingamiðlunina. En þegar við horfum á lögregluna erum við ekki bara að horfa á lögreglumenn og konur við erum með alls konar starfsfólk. Ég man til dæmis eftir því þegar ég kom til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þá var kona í afgreiðslunni sem talaði tíu tungumál; rússnesku, litháísku og mörg fleiri. Hún var andlitið okkur og gat nánast mætt hverjum sem var á þeirra grunni. Það skipti bara mjög miklu máli fyrir þjónustuna.“
Er leiðin þá sú að fjölga bara innflytjendum í öðrum störfum innan lögreglunnar eða þarf að breyta aðgangskröfum í námið þannig að fólk af erlendum uppruna, sem kannski talar ekki íslensku eins og innfæddir, geti átt raunhæfan möguleika á því að komast inn og í gegnum síuna sem er til staðar í lögreglunáminu, nú kannski sækja 240 um en aðeins 40 komast í starfsnámið?
„Þetta er bara eitthvað sem þarf að skoða, þessar leiðir þarf að skoða en ég held það séu líka fleiri leiðir færar, eins og að vera með sérhæfða hópa sem eiga að byggja brýr.“
Þetta hafi verið gert hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, þegar Eyrún Eyþórsdóttir, nú lektor við Háskólann á Akureyri, stýrði átaksverkefni sem sneri að hatursglæpum. Það verkefni hafi gefist vel, opnað umræðuna, skapað tengsl við samfélag innflytjenda og orðið til þess að lögreglan rannsakaði fjölda mála. Nú falla hatursglæpir undir sömu deild og morð og alvarlegar líkamsárásir. Eyrún sagði í Speglinum í vikunni að í þeirri deild virðist þessi mál falla í skuggann. Mun færri mál séu tekin til rannsóknar nú en áður. Sigríður segir að það gangi ekki til lengdar að vera með átaksverkefni, það sé mikilvægt að allir geti gert allt, það sé ekki bara einn sem geti tæklað hatursglæpi. Sigríður nefnir líka samfélagslöggæslu sem form af brúarsmíð, en á Írlandi hefur verið horft til þess að í hverju hverfi sé einn lögreglumaður sem er í góðum tengslum við samfélagið og fólk treystir sér til að leita til, innfytjendur og aðrir.
Vill aukna fræðslu
Það á að efla fjölmenningarfræðslu í háskólanáminu frekar og eftir að matshópurinn hefur lokið úttekt verða gerðir nýir samningar um námið. Sigríður segir að þá fari líklega fram eitthvert samtal við Háskólann á Akureyri um hvernig megi laða fjölbreyttari hóp í námið. Hún segir líka vilja til að efla fræðslu til starfandi lögreglumanna, en um 12% þeirra hafa sótt námskeið um fjölmenningu og samskipti við ólíka samfélagshópa, innflytjendur, hinsegin fólk og fleiri. Þetta ræði lögreglustjórar væntanlega á fundinum á mánudag.