Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ríkislögreglustjóri vill rannsaka kynþáttafordóma

Mynd:  / 
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ,ríkislögreglustjóri, vill rannsaka hvort kynþáttafordómar þrífast innan lögreglunnar og rýna samskipti hennar við innflytjendur. Umræðan um kynþáttafordóma og lögregluofbeldi vestanhafs hafi ýtt við lögreglunni hér og komið þessum þáttum ofar á forgangslistann. Lögregluráð, sem samhæfir aðgerðir milli embætta, fundar um stöðuna á mánudag. 

Þarf að skoða samsetningu og stjórnun lögregluliða

„Ég held þetta sé umræða sem allir þurfa að taka til sín, það þarf alls staðar að skoða samsetningu og stjórnun lögregluliða og hvernig samfélagið sem við eigum að þjóna upplifir okkur. Ekki bara hvernig við viljum gera okkar besta heldur líka til hvers fólk ætlast til af okkur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri og fyrrum lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

„Getum ekki sagt að allt sé í lagi hjá okkur“

Lögreglan hefur til dæmis veitt því athygli að fólk af erlendum uppruna svarar síður þolendakönnunum og því hefur verið velt upp hvort þær séu nógu aðgengilegar. En hvað um kynþáttafordóma, gætir þeirra innan lögreglunnar? Sigríður segir erfitt að fullyrða um það, það sé erfitt að andmæla fólki sem upplifir að lögreglan taki frekar málstað þess sem er hvítur á hörund en dökkur. Jafnvel þó sú afstaða sé hugsanlega lituð af reynslu viðkomandi frá heimalandi sínu. „Við getum ekki bara sagt þið eigið að treysta okkur og það er allt í lagi hjá okkur. Við þurfum að byrja að fá rannsóknir sem sýna hvernig þetta er hjá okkur í raun og veru. Við þurfum líka að hlusta á okkar viðskiptamenn og spyrja, hvað þætti þér best?“ 

Sjá einnig: „Það er ekkert skrítið að fólk treysti okkur ekki“

„Hvað er út af hörundslit og hvað ekki?“

epa08481009 A billboard with a memorial of flowers which was unveiled by UK's Black Lives Matter ahead of rival demonstrations by anti-racism and far-right protesters are pictured in south London, Britain, 12 June 2020. Protesters gathered to express their feelings in regard to the death of 46 year old George Floyd while in police custody. A bystander's video posted online on 25 May appeared to show George Floyd, 46, pleading with arresting officers that he couldn't breathe as an officer knelt on his neck, in Minnesota, USA. The unarmed black man later died in police custody.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnisvarði um George Floyd í London.

Á fundi lögregluráðs á mánudag verður rætt hvort tilefni sé til að ráðast í sameiginlega rannsókn á samskiptum lögreglunnar við innflytjendur. „Hverjir ættu að koma að því, hvernig það yrði fjármagnað, hver væri markhópurinn, hvað við ætlum að fá út úr þessu. Það er alveg ljóst að þetta er mikilvægt verkefni.“

Sjálf hefur hún ekki fengið tilkynningar um mismunun eða lögregluofbeldi sem tengist kynþætti. „Hvað er út af hörundslit eða út af einhverju öðru, það er erfitt fyrir mig að meta það. Ég er bara að segja að það eru ekki mörg mál sem hafa komið til mín þar sem þessi ásökun kemur fram, að brotið hafi verið á manni vegna litarháttar. Það er bara ekki. Það þýðir ekki endilega að það sé ekki, ég er ekki að segja það. Það getur líka verið að leiðin sé of löng eða að fólk viti ekki hvert það á að leita. Það þarf þess vegna alltaf að fá rannsóknir, passa að aðgengi sé auðvelt, að það sé þekking til að vinna málin. Svo verður lögreglan líka að geta svarað ásökunum þannig að þær séu skoðaðar af hlutlausum aðila, fengin niðurstaða og hún birt. Annars grefst undan traustinu því við getum aldrei tjáð okkur um einstök mál þegar þau koma upp.“

Brotum ekki sópað undir teppið

Hún bendir á að það sé mikið eftirlit með lögreglu. Nefnd um eftirlit með henni taki mörg mál fyrir og fari yfir myndefni, til dæmis úr búkmyndavélum lögreglumanna og frá vitnum á vettvangi. Nefndin komst nýlega að þeirri niðurstöðu að aðgerðir lögreglu á mótmælum hælisleitenda á Austurvelli í fyrra, hefðu ekki verið óeðilleg en hún beitti piparúða og handtók tvo. Sigríður nefnir að ríkissaksóknari og héraðsaksóknari hafi líka eftirlitshlutverk að ógleymdum umboðsmanni Alþingis. „Við megum ekki gleyma því að ef það kemur upp atvik eða brot þar sem lögreglumaður gerist sekur um ofbeldi þá fer það ekki undir teppið. Það er ákært í þeim málum, þau eru rannsökuð og viðkomandi missir starfið sitt, það er engin leið til baka.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Frá mótmælum hælisleitenda á Austurvelli í mars 2019.

Bjóst við því að fá fleiri innflytjendur í námið

Umræðan er ekki ný og sjálf hefur Sigríður komið að því að fjölga konum innan lögreglunnar, efla menningarlæsi og breyta vinnumenningu. Á hennar vakt hækkaði hlutfall kvenlögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu úr 14% í 30%. „Það eru ekkert svo mörg ár síðan íslenska lögreglan var mjög einsleit, það var sami bakgrunnur, sami skólinn, sama rörið sem allir fóru í gegnum.“

Um fimmtungur landsmanna er af erlendum uppruna en innflytjendur í löggunni eru í dag sárafáir, nákvæmur fjöldi hefur ekki verið tekinn saman en fyrir liggur að lögreglunemum með erlendan bakgrunn fækkaði um helming, úr 12% Í 6% þegar námið fluttist yfir á háskólastig árið 2016. „Eitt af því sem við vildum gera þá var að reyna að fjölga fólki af erlendum uppruna en það hefur ekki raungerst, við reiknuðum ekki með þessari þróun og nú fer af stað matshópur sem gerir úttekt á náminu, hvernig hafi tekist til og þá verið að meta þetta allt saman. Þá væntalega munum við reyna að setja þennan þátt inn og hvernig við getum þá laðað að okkur fólk af erlendum uppruna vegna þess að það eru bara þessi grunnatriði, þess vegna þurfum við konurnar ínn í lögregluna, það þýðir ekki að karlarnir séu ekki frábærir, þeir eru það en helmingurinn af okkar kúnnum eru konur og það skiptir máli að hafa þekkingu, reynslu og nálgun beggja kynja. Með sama hætti skiptir máli að geta sett sig inn í reynsluheim þeirra sem þurfa að sækja þjónustu hjá okkur, sérstaklega þeir sem eru í viðkvæmustu stöðunni, til dæmis þá sástu í Metoo umræðunni hvað konur af erlendum uppruna voru stór hópur þar.“

Sjá einnig: Lögreglan langt frá því að endurspegla samfélagið

Mynd með færslu
 Mynd:
Námið skiptist í bóklegt nám í Háskólanum á Akureyri og verklegt nám hjá Menntasetri lögreglunnar.

Konan í afgreiðslunni mikilvæg

En ætlar lögreglan að setja sér markmið um að ná hlutfalli lögreglumanna af erlendum uppruna upp í ákveðna prósentu? „Þetta er klárlega eitt af þeim verkefnum sem eru á borðinu hjá okkur og þessi umræða hefur í rauninni flýtt því verkefni og sett það framar í röðina. Við ætluðum okkur alltaf að auka hlut lögreglufólks af erlendum uppruna og höfum unnið talsvert með pólskum lögregluyfirvöldum. Það er algjör breyting ef þú ert með pólskan lögreglumann sem getur séð um að túlka og koma öllu til skila, passa upp á upplýsingamiðlunina. En þegar við horfum á lögregluna erum við ekki bara að horfa á lögreglumenn og konur við erum með alls konar starfsfólk. Ég man til dæmis eftir því þegar ég kom til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þá var kona í afgreiðslunni sem talaði tíu tungumál; rússnesku, litháísku og mörg fleiri. Hún var andlitið okkur og gat nánast mætt hverjum sem var á þeirra grunni. Það skipti bara mjög miklu máli fyrir þjónustuna.“ 

Er leiðin þá sú að fjölga bara innflytjendum í öðrum störfum innan lögreglunnar eða þarf að breyta aðgangskröfum í námið þannig að fólk af erlendum uppruna, sem kannski talar ekki íslensku eins og innfæddir, geti átt raunhæfan möguleika á því að komast inn og í gegnum síuna sem er til staðar í lögreglunáminu, nú kannski sækja 240 um en aðeins 40 komast í starfsnámið?

„Þetta er bara eitthvað sem þarf að skoða, þessar leiðir þarf að skoða en ég held það séu líka fleiri leiðir færar, eins og að vera með sérhæfða hópa sem eiga að byggja brýr.“ 

Þetta hafi verið gert hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, þegar Eyrún Eyþórsdóttir, nú lektor við Háskólann á Akureyri, stýrði átaksverkefni sem sneri að hatursglæpum. Það verkefni hafi gefist vel, opnað umræðuna, skapað tengsl við samfélag innflytjenda og orðið til þess að lögreglan rannsakaði fjölda mála. Nú falla hatursglæpir undir sömu deild og morð og alvarlegar líkamsárásir. Eyrún sagði í Speglinum í vikunni að í þeirri deild virðist þessi mál falla í skuggann. Mun færri mál séu tekin til rannsóknar nú en áður. Sigríður segir að það gangi ekki til lengdar að vera með átaksverkefni, það sé mikilvægt að allir geti gert allt, það sé ekki bara einn sem geti tæklað hatursglæpi. Sigríður nefnir líka samfélagslöggæslu sem form af brúarsmíð, en á Írlandi hefur verið horft til þess að í hverju hverfi sé einn lögreglumaður sem er í góðum tengslum við samfélagið og fólk treystir sér til að leita til, innfytjendur og aðrir. 

Vill aukna fræðslu

Það á að efla fjölmenningarfræðslu í háskólanáminu frekar og eftir að matshópurinn hefur lokið úttekt verða gerðir nýir samningar um námið. Sigríður segir að þá fari líklega fram eitthvert samtal við Háskólann á Akureyri um hvernig megi laða fjölbreyttari hóp í námið. Hún segir líka vilja til að efla fræðslu til starfandi lögreglumanna, en um 12% þeirra hafa sótt námskeið um fjölmenningu og samskipti við ólíka samfélagshópa, innflytjendur, hinsegin fólk og fleiri. Þetta ræði lögreglustjórar væntanlega á fundinum á mánudag. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv