Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rafrænu ökuskírteinin væntanleg innan skamms

12.06.2020 - 17:46
Mynd með færslu
Sigurður Ingi Jóhannsson Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur undirritað reglugerð sem heimilar útgáfu stafrænna ökuskírteina. Gangi áætlanir eftir verður hægt að sækja þau í símann síðar í mánuðinum í gegnum vefinn ísland.is. Ökuskírteini eru almennt viðurkennd gagnkvæmt milli EES-ríkja, en nýju skírteinin munu aðeins gilda hér á landi þar sem þau uppfylla ekki kröfur Evróputilskipunar.

Um er að ræða samstarfsverkefni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Stafrænu skírteinin verða gefin út af ríkislögreglustjóra og hér á landi verða þau jafngild hefðbundnum ökuskírteinum, sem verða áfram gefin út af sýslumönnum.  

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að verkefnastofan Stafrænt Ísland hafi unnið tæknilausn í samstarfi við ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðuneytið svo sækja megi stafræn ökuskírteini í snjallsíma.

Ráðherra segir skírteinin mikið framfaraskref

Í tilkynningunni er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að þetta fyrirkomulag sé mikið framfaraskref sem auki þægindi fólks. Það sé stefna ríkisstjórnarinnar að hið opinbera bjóði upp á fleiri stafrænar lausnir, segir ráðherra  í tilkynningunni þar sem hann hvetur fólk til að sækja skírteinið í síma sína um leið og það verði mögulegt.