Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ónothæf örbylgjuloftnet trufla 4G-tíðni á stóru svæði

12.06.2020 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd: Póst- og fjarskiptastofnun
Símtöl slitna, SMS-skilaboð komast ekki á leiðarenda og það hægist á streymi í grennd við biluð örbylgjuloftnet sem upphaflega voru sett upp til að dreifa Fjölvarpinu, sjónvarpsveitu með fjölda sjónvarpsstöðva. Notkun loftnetanna var hætt fyrir þremur árum.

Póst- og fjarskiptastofnun og fjarskiptafyrirtækin í landinu skera nú upp herör gegn örbylgjuloftnetum til að vinna bug á truflunum af völdum þeirra sem enn eru tengd við rafmagn.

Truflunin lýsir sér þannig að tíðnibreytir loftnetanna tekur við merkjum og sendir út á 4G-tíðni sem farsímar og sjónvörp flestra eru á í dag. Dæmi um truflanir sem þetta veldur eru: 

  • Minni gæði á talsambandi farsíma
  • SMS komast ekki til skila í fyrstu tilraun
  • Símtöl ná ekki í gegn í fyrstu tilraun og þau slitna
  • Streymi er hægt og höktir
  • Almenn netþjónusta og gagnaflutningur er hægur

Truflunin er aðeins í og við þau hús sem loftnetin eru á. Tekið skal fram að ekki er átt við eldri sjónvarpsloftnet, svokölluð greiðuloftnet.

Fór að bera á truflunum síðasta sumar

Birna G. Magnadóttir, samskiptafulltrúi Póst- og fjarskiptastofnunar, segir að tilkynningar um truflanirnar hafi byrjað að berast síðasta sumar. „Þegar við fórum að kanna málið kom í ljós að þetta er búnaður sem tengist þessum loftnetum sem er farinn að bila og augljóst að við þurfum að grípa inn í. Við fórum að kortleggja vandann og taka þetta niður.“

Á undanförnum vikum og misserum hefur stofnunin orðið vör við truflanir í vaxandi mæli á farsímasambandi á höfuðborgarsvæðinu og víðar. 

Mynd með færslu
Svona lítur sökudólgurinn út, tíðnibreytir sem truflar 4G. Nóg er að taka hann úr sambandi til að truflun hætti.

Nóg að taka spennubreytinn úr sambandi

Örbylgjuloftnetin voru sett upp við fjölda heimila á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Suðurnesjum, í Hveragerði og á Selfossi. Talið er að allt að 20-30 þúsund loftnet valdi nú truflun og er verkefnið því viðamikið. Loftnetið er aðeins tekið niður til þrautavara, yfirleitt dugar að taka spennubreytinn einfaldlega úr sambandi.

„Oft hefur þetta dagað uppi í húsum. Þetta getur verið inni í sjónvarpsskáp eða bak við sjónvarpið, sums staðar er þetta bara í innstungu bak við sjónvarpið,“ segir Birna.

Kostnaður mun hlaupa á tugum milljóna

Þorleifur Jónasson, forstöðumaður tæknideildar PFS leggur áherslu á að stofnunin sé að leggja umtalsverðan tíma og viðbótar mannafla til verkefnisins. Kostnaðurinn mun hlaupa á tugum milljóna en fari eftir því hvernig gangi að uppræta vandann með hjálp samborgara þar sem húseigendur eigi loftnetin. 

Fjarskiptafyrirtækin Síminn, Vodafone og Nova taka þátt í átakinu með því að kynna verkefnið og svara spurningum notenda. 

Sérstaka leiðbeiningarsíðu með upplýsingum um búnaðinn og hvernig hann skal aftengja má finna hér.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV