Nýtt frá Ásgeiri, Gretu Salóme og Óla Stef

Mynd: Greta Salóme / Greta Salóme

Nýtt frá Ásgeiri, Gretu Salóme og Óla Stef

12.06.2020 - 10:50

Höfundar

Íslenskt tónlistarfólk er svo sannarlega ekki komið í sumarfrí og að venju er boðið upp á hressandi nýmeti í Undiröldunni. Helst má nefna, þennan fimmtudag, upphaf tónlistarferils Óla Stef sem sumir kalla Handbolta-Elvis, ábreiðu sem tók þrjú ár í framleiðslu og nýjan söngul frá Ásgeiri Trausta.

Ásgeir – Minning

Í febrúar gaf tónlistarmaðurinn Ásgeir út þriðju breiðskífu sína og til stóð að hann myndi verja mestum hluta ársins erlendis við að kynna plötuna á tónleikaferðalögum. Svo fór sem fór og Ásgeir ætlar þess í stað að halda 13 tónleika víðs vegar um landið í júlí.


Greta Salóme – Án þín

Söng- og tónlistarkonan Greta Salóme hefur gefið út ábreiðu af lagi Trúbrots, Án þín. Lagið er erlent við texta Þorsteins Eggertssonar, og hefur verið standard frá því það kom út á fyrstu breiðskífu Trúbrots árið 1969.


GDMA – Ljósin

Lagið Ljósin er með GDMA, poppdúett sem gerir út frá Selfossi og saman stendur af tveimur bestu vinum, Degi Snæ Elíssyni og Gabríel Werner Guðmundssyni, sem hafa verið nokkuð duglegir á undanförnum árum að hlaða upp á Spottann.


Aron Hannes – Girl Like You

Aðdáendur Söngvakeppni sjónvarpsins muna eflaust eftir tónlistarmanninum Aroni Hannes sem hefur sent frá sér lagið Girl Like You. Þar hefurhann sér til aðstoðar tónlistarfólksúr bransanum og um upptökur sá Reynir Snær Magnússon.


Azpect – Save Myself

Vinirnir Atli Dagur Stefánsson og Haukur Sindri Karlsson, sem skipa dúettinn Azpect og hafa unnið saman af tónlist frá blautu, hafa sent út á streymisveitur lagið Save Myself sem fylgir eftir nokkuð líflegri útgáfu þeirra á þeim miðli á árinu.


Óli Stef – Ferðalangurinn

Handboltakappinn, lífskúnstnerinn og nú söngvarinn Ólafur Stefánsson hefur sent frá sér túlkun sína á lagi og texta Benedikts Sigurðssonar, Ferðalangurinn, þar sem Pálmi Sigurhjartarson og Ásmundur Jóhannsson sjá um hljóðfæraslátt.


Regína Jónsdóttir – Faðmlag

Tónlistarkonan og söngkonan Regína Jónsdóttir hefur sent frá sér lagið Faðmlag sem er líklega fyrsta lag hennar. Þar nýtur hún aðstoðar Tómasar Jónssonar sem spilar á píanó.


Kólumkili – Júpíter

Hljómsveitin Kólumkilli hefur sent frá sér lagið Júpíter. Lagið er níðstöng reist til höfuðs bleikum svínum í hvítum húsum að sögn sveitarinnar. Lagið er einnig gefið út á Spotify og þar má líka finna fyrstu breiðskífu sveitarinnar, Untergang Blues sem kom út 2018.