Guðmundur er hættur við að hætta

12.06.2020 - 21:19
Mynd með færslu
Guðmundur Marteinsson Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Náðst hefur samkomulag um að Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, starfi áfram sem framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu, en 30. apríl síðastliðinn var tilkynnt um að hann hefði óskað eftir að láta þar af störfum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Högum.

Þar segir að samkomulag þessa efnis hafi náðst við Guðmund í dag. Í ársreikningi félagsins, sem var birtur 18. maí síðastliðinn, hafi verið tilkynnt að fjárhagsleg áhrif starfslokanna kæmu fram á fyrsta ársfjórðungi rekstrarársins 2020/21. „Í ljósi fyrrgreinds samkomulags mun ekki koma til gjaldfærslu nú, líkt og áður hafði verið áætlað,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur að nú geri mat stjórnenda ráð fyrir því að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir samstæðunnar (EBITDA) á fyrsta ársfjórðungi, tímabilið 1. mars til 31. maí 2020, verði 1.100 til 1.250 millj. króna.

Þegar greint var frá starfslokum Guðmundar kom fram að hann hefði verið með þriggja ára uppsagnarfrest og gilti þá einu hvort hann léti sjálfur af störfum eða væri sagt upp. Fram kom að starfslok hans myndu kosta Haga um 250 milljónir.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi