Feta, ei meir

12.06.2020 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd af heimasíðu MS - MS
Fetaosturinn frá Mjólkursamsölunni hættir að heita feta eftir að grískur Evrópuþingsmaður gerði athugasemdi við það. Heitið er upprunaverndað og aðeins má framleiða FETA í Grikklandi.

Gríski Evrópuþingmaðurinn Emmanouil Fragkos lagði í apríl fram fyrirspurn um fetaostsframleiðslu MS. Hann segir fetaost búinn til úr mjólk úr þarlendum ám og geitum og ýmsar reglur og skilyrði séu fyrir því að kalla ostinn feta. Nafnið sé upprunavarið og ekki megi kalla sambærilega osta þessu nafni séu þeir framleiddir utan Grikklands, að ekki sé talað um utan Evrópusambandsins og með annarri aðferð.

Kvartanir hafi borist um víðtæka notkun MS á nafninu feta, eins og Feta kubbur, Dala Feta, Salat Feta, auk heitisins Grísk jógúrt, og svo framvegis. Fragkos spyr því hvort þessi notkun MS á heitinu feta sé lögleg og hvernig verði staðið að því að vernda einkaréttinn. Í svari framkvæmdastjórnarinnar segir að fyrsta maí 2016 hafi samkomulag Evrópusambandsins og Íslands tekið gildi þar sem veitt er upprunavernd fyrir matvörur. Einkaréttur á notkun heitisins feta falli þar undir og bannað sé að nota nafnið, hvort heldur er beint eða óbeint. Fram kemur í svari framkvæmdastjórnarinnar að þegar hafi verið haft samband við íslensk stjórnvöld þar sem kallað er eftir staðfestingu á notkun MS á heitinu feta og ef rétt reynist verið gripið til viðeigandi ráðstafana. Sunna Gunnars Marteinsdóttir samskiptastjóri Mjólkursamsölunnar segir að brugðist verði við.

„Við fengum erindi frá Matvælastofnun í byrjun vikunnar um nafnið feta og feti. Við höfum hug á að breyta nafninu á okkar vörum og höfum nú þegar sett af stað vinnu í því tilliti með nöfnunum Salatostur og Veisluostur.“
Þannig að orðið feta í einhverri mynd hverfur þá af ykkar lista?
„Já, fáum Salatost og Veisluost í staðinn.“

Sunna segir að nnan skamms komi því nýjar umbúðir með nýju nafni í hillur verslana.

„Við eigum möguleika á því að kannski klára umbúðirnar sem að til eru og ætlum að ræða við Matvælastofnun um það, en þetta kemur bara vonandi sem fyrst, Saltostur og Veisluostur.“
Þannig að ákvörðunin er komin og hún er klár?
„Já, hún er klár og bara komin drög að fallegum miðum.“
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi