
Afkoma hins opinbera neikvæð um 32 milljarða
Engar arðgreiðslur tekjufærðar miðað við 5,3 milljarða í fyrra
Hallann má rekja til samdráttar í helstu tekjustofnum ríkissjóðs, skatta á tekjur og hagnað, virðisaukaskatt og tryggingargjald. Að auki voru engar arðgreiðslur tekjufærðar frá fjármálafyrirtækjum samanborið við tekjufærðan arð upp á 5,3 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.
Tekjuafkoma hins opinbera á fyrsta ársfjórðungi í fyrra var neikvæð um 0,5 prósent af vergri landsframleiðslu eða 3,4 milljarða.
Stjórnvöld birtu niðurstöður 20. maí úr yfirferð á þeim aðgerðum sem þegar hefur verið ráðist í vegna kórónuveirufaraldursins. Bein útgjöld vegna þeirra voru þá ríflega hundrað milljarðar króna.
Áhrif COVID-19 á afkomuna skýrist á næsta ársfjórðungi
Hagstofan greinir frá því að áhrif COVID-19 gæti þegar í tekjusamdrætti og auknum útgjöldum til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Áhrif faraldursins sjáist með meira afgerandi hætti á næsta ársfjórðungi þegar ráðist verður í þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa boðað til og koma til framkvæmda þá.