Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Yfir 6000 manns haft samband við lögmann vegna Ischgl

11.06.2020 - 23:48
epa08293579 (FILE) - Skiing tourists in Ischgl, Austria, 30 November 2013 (reissued 14 March 2020). According to reports, the Austrian government has put popular touristic areas, Heiligenblut am Grossglockner, Paznautal, including Ischgl, and St. Anton under quarantine amid the ongoing Coronavirus crisis.  EPA-EFE/STR  AUSTRIA OUT
 Mynd: EPA
Yfir sex þúsund manns frá 47 löndum vilja fá miskabætur eftir að hafa smitast af kórónuveirunni í skíðaferðalagi í Ischgl í Austurríki. Fólkið hefur haft samband við austurrískan lögmann sem krefst skaðabóta frá ríkinu.

Dagens Nyheter greinir frá og segir að í vor hafi lögmaðurinn, Peter Kolba, safnað vitnisburðum og kvörtunum frá ferðalöngum sem smituðust af COVID-19 í Ischl og nálægum skíðasvæðum. Hann segir að ef skíðasvæðinu hefði verið lokað viku fyrr hefði mátt koma í veg fyrir að þúsundir veiktust. 

Í lok maí hafi alls 6.151 maður frá 47 löndum verið búinn að hafa samband. Alls höfðu 151 þeirra orðið það veikur að hafa þurft að leggjast inn á spítala og 27 látið lífið. Í hópnum öllum eru yfir 250 Norðurlandabúar. 

Þýsk rannsókn sýnir að enginn annar atburður hafi leitt af sér jafn mikinn fjölda smita í Þýskalandi og heimkoma ferðalanga frá Ischgl. Stjórnvöld í Tíról hafa skipað óháða nefnd til að rannsaka hvers vegna það hafi tekið svo langan tíma fyrir yfirvöld að bregðast við og hver beri ábyrgð á því.