Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það er ekkert skrítið að fólk treysti okkur ekki“

Mynd: Rúv / Rúv

„Það er ekkert skrítið að fólk treysti okkur ekki“

11.06.2020 - 17:47

Höfundar

Það hefur myndast gap á milli lögreglunnar og almennings og það ber meira á vantrausti og virðingarleysi. Þetta er mat Hreins Júlíus Ingvarssonar og Unnars Þórs Bjarnasonar, varðsstjóra á lögreglustöðinni við Dalveg í Kópavogi. Á mánudögum sinna þeir samfélagslöggæslu og hluti af því verkefni er að mynda tengsl við innflytjendur. Báðir fóru þeir á námskeið um fjölmenningu sem opnaði augu þeirra fyrir eigin forréttindum.

Latte með löggunni

Samfélagslögguverkefnið svokallaða er rúmlega ársgamalt en hefur legið að mestu niðri í heimsfaraldrinum. það miðar að því að bæta tengslin við almenning á starfssvæði lögreglustöðvar þrjú, í Kópavogi og Breiðholti. Helst myndu þeir Hreinn og Unnar vilja sinna þessu verkefni alla daga. Þeir segja að lögreglan eigi ekki bara að sjást við eftirlit á stofnbrautum, hún eigi að vera hluti af samfélaginu. Þeir fara í körfu með krökkunum, heimsækja félagsmiðstöðvar og moskur og héldu í fyrra viðburðinn Latte með löggunni á Gamla kaffihúsinu í Breiðholti. „Draumsýnin okkar er að það væru tveir lögreglumenn á hverri stöð, þær eru fjórar á höfuðborgarsvæðinu, sem væru bara að sinna þessu alla daga, þessari tengslamyndun og fara í hverfin og ræða við fólk. Ég held það sé bara mikil þörf á því,“ segir Hreinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Samfélagslöggur/Instagram
Skjáskot af Instagram síðu samfélagslögganna.

„Við viljum bara minnka bilið á milli lögreglunnar og samfélagsins, þetta er fólkið sem við erum að þjónusta og eiga í samskiptum við alla daga og við vorum farnir að skynja að það væri ákveðið gap á milli, við erum að reyna að bæta í það gat,“ segir Unnar. 

„Búið að hrækja á hurðarhúnana“

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglunni finnst hún hafa misst tengslin við borgara.

Hreinn segir að lögreglan hafi í raun verið í ákveðnum viðbragðsfasa frá Hruni, þess vegna hafi þetta bil orðið til. „Við erum endalaust að bregðast við útköllum og verkefnum og okkar tilfinning er bara að við höfum ekki getað gefið okkur tíma til að hlúa að þessu mannlega, tala við fólk á vettvangi, gefa okkur tíma til að ræða við fólk um hin og þessi vandamál heldur bregðumst við bara við og erum svo bara farnir. Við ætlum að reyna að snúa þróuninni aðeins við.“

En hvað er það í samskiptum lögreglu og almennings sem bendir til þess að það sé eitthvert gap? Hvernig birtist það? Unnar nefnir dæmi. „Við vorum bara farnir að finna að við vorum farnir að fjarlægjast almenning og farnir að skynja ákveðinn ótta og virðingarleysi gagnvart okkur sem lýsir sér ágætlega í einni reynslu sem ég lenti í. Við vorum að fara í grunnskóla á okkar svæði og þegar við erum búnir að ljúka verkefninu þá komum við út og sjáum að það er búið að sulla gosdrykk yfir allan bílinn, hrækja á hruðarhúnana og sprengja flugeld undir honum. Þetta er eitthvað sem okkur finnst ekki alveg vera í lagi og viljum sjá breytingu á.“

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Unnar og Hreinn.

Vantraust og óöryggi skiljanlegt

Hreinn segir þessa þróun í raun skiljanlega. „Það er ekkert skrítið, miðað við þróun síðustu ára, að ungmenni og jafnvel fullorðnir hafi þessa mynd og viðhorf til okkar, eins og ég segi, við höfum ekkert verið að gefa okkur tíma til að tala við það og reyna að fá þau til að skilja hvaðan við komum og hvaða hlutverki við höfum að gegna. Þetta er ein birtingarmyndin og önnur er að fólk er ekki að gefa okkur upplýsingar, það vill ekki tala við okkur. Við höfum verið að fara í eignaspjallamál og svoleiðis og fólk hefur engan áhuga á að deila neinum upplýsingum með okkur því það treystir okkur ekki fyrir þeim.“

Erfiðara að nálgast innflytjendur

Þeir segja þetta ekki tengjast innflytjendum sérstaklega, lögreglan sé bara heilt yfir búin að missa tengslin við fólkið á svæðinu.  Þeir hafa aftur á móti rekið sig á það, í samfélagslöggæslunni, að þeir hitta síður fyrir ungmenni af erlendum uppruna. „Þau virðast ekki sækja mikið í þetta æskulýðsstarf, í félagsmiðstöðvar og þessa staði sem við erum að fara á, hver svo sem ástæðan fyrir því er. VIð brugðum þá á það ráð að fara bara beint í skólann, í hádeginu. Unnar fór upp í Fellaskóla og spjallaði við nokkra þar. Svo höfum við verið í samskiptum við þjónustumiðstöð Breiðholts um að fá þá til að hjálpa okkur til að nálgast þennan hóp betur.“

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Takk fyrir okkur Hólmasel #stinger #communitypolicing #breiðholt

A post shared by Samfelagsloggur (@samfelagsloggur) on

Hreinn og Unnar hafa hug á að fá að hitta innflytjendur sem flytja á svæðið, til þess að kynna lögregluna og störf hennar fyrir þeim. „Draumurinn væri sá að við værum einn af þeim aðilum ásamt félagsþjónustunni, öllum öðrum sem þurfa að kynna sig fyrir þeim að við værum þá með í þeim pakka og gætum leiðbeint fólki með hvernig lögin hér virka og hvernig það geti sótt aðstoð ef það vantar aðstoð.“ 

Hlæja saman við handtöku

Þessir hópar hafi nefnilega misjafna sýn á lögregluna frá sínu heimalandi og þekki ekki til starfa lögreglu hér. „Við finnum það alveg dagsdaglega hjá erlendum aðilum að sumir eru hreinlega skíthræddir við okkur. VIð þurfum að gera betur þar,“ segir Hreinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Lögreglan við störf.

Unnar bætir viðað stundum undrist Innflytjendur sem lögreglan hefur afskipti af að hún skuli ekki sýna þeim hörku. „Í ljósi umræðunnar nýlega þá höfum við oft fengið þau viðbrögð frá fólki, til dæmis frá Austur-Evrópu, sem undrast hvað lögreglan á Íslandi er þægileg og almennileg í viðmóti. Þeir undrast það að ekki sé verið að berja þá við handtöku, bókstaflega, því þannig er það alltaf í heimalandinu. Þeir eru að þakka okkur fyrir það og hlæja að því með okkur.“

Átök milli þjóðernisbrota

Í Breiðholti er um þriðjungur íbúa af erlendum uppruna. Það er ekkert sem bendir til þess að glæpatíðni sé hærri í hverfum þar sem hlutfall innflytjenda er hátt en lögreglan virðist hafa áhyggjur af því að innflytjendur safnist saman í vissum hverfum. Í skýrslu ríkislögreglustjóra frá í byrjun árs er talað um framtíðaráskoranir í löggæslu, þar er brugðið upp sviðsmyndum af viðkvæmum hverfum þar sem félagsleg blöndun er lítil og hlutfall innflytjenda hátt, það ríkir vantraust og tortryggni í garð lögreglu og hún hefur ekki aðgang að hópum í samfélaginu vegna tungumálaörðugleika. Hatursglæpum fjölgar í þessum sviðsmyndum og spenna ríkir milli innflytjenda og þjóðernissinna . „Mín upplifun er sú að það er engin fjölgun á afbrotum með fjölgun útlendinga en það er náttúrulega það sem við erum að sjá að það er gríðarlegur fjöldi annarra tilkynninga um alls konar vandamál sem fylgir bara þessu félagslega, sem tengist ekki þessum hópi endilega heldur bara að þegar fólk af ólíkum þjóðarbrotum kemur saman þá eru oft árekstrar, ég held það þurfi ekkert að tala undir rós með það, og það eru þannig mál sem við erum svolítið að fara í, það er náttúrulega ekki skráð sem hegningalagabrot eða svoleiðis,“ segir Hreinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Mjódd. Breiðholti.

Fólki megi ekki finnast það afskipt

Hafið þið áhyggjur af því að þróunin verði þannig í framtíðinni, til dæmis í Breiðholtinu, að það verði til gengi og ófremdarástand eigi eftir að ríkja? Að þið hafið ekki aðgang að fólki í samfélaginu vegna tungumálaörðugleika? „Ég held það sé bara þannig að öll svæði, sama hvort það sé Breiðholtið eða annað, útlendingar eða Íslendingar. Öll svæði sem eru afskipt, skilin útundan af kerfinu, hvort sem það er lögreglan, félagsbatterí eða annað. Þarna er hættan fyrir hendi. Fólk einangrast, myndar gengi. Það verður erfiðara að ná til þeirra. Að fólk sé ekki að tilkynna um ofbeldi sem það hefur orðið fyrir sjálft eða afbrot af því það treystir ekki lögreglu. VIð þurfum að stíga betur inn í, ekki bara lögreglan heldur samfélagið allt. Láta fólki ekki finnast það afskipt,“ segir Hreinn. 

Unnar segir að þegar þörf er á sé kallað á túlk. „Það fer eftir umfangi málsins, flestir ná að gera sig skiljanlega í megindráttum en ef það er spurning um hvort þetta er stærra mál, þeim mun meiri hagsmunir sem þarf að gæta, þá köllum við alltaf til túlk.“

Framboð af túlkum sé orðið ágætt hér og að auki hafi lögreglan aðgang að erlendri túlkaþjónustu í gegnum síma.  

Mikilvægt að lögreglan endurspegli samfélagið

Í skýrslu ríkislögreglustjóra er meðal annars horft til þess að fjölga lögreglumönnum með erlendan bakgrunn í því skyni að lögreglan endurspegli samfélagið betur. Um fimmtungur landsmanna er af erlendum uppruna en innan lögreglunnar starfa sárafáir innflytjendur. Um þetta var fjallað í Speglinum í gær. 

Sjá einnig: Lögreglan langt frá því að endurspegla samfélagið

Þeim Unnari og Hreini finnst að lögreglan eigi að endurspegla samfélagið.  „Það bara skiptir svo miklu í öllum afgreiðslum á málum, þú þarft að endurspegla viðkomandi, reyna að skilja hvaðan hann er að koma, til að leysa vandamálin farsællega. Það kannski getur verið svolítið erfitt þegar þú talar ekki tungumálið eða lítur ekki svipað út og alls konar, þetta er bara svona mannlegur hlutur og þetta hangir alveg saman við það sem ég var að segja um að það megi ekki láta fólki líða eins og það sé annars flokks, ef við erum ekki mikið í samskiptum við það, af hverju ætti þá fólk af erlendum uppruna að vilja vera í lögreglunni? Það er vonandi með þetta sem við erum að gera, að efla þetta samtal, fara í körfu og gera þetta mannlegt, að fólk sjái það þá sem álitlegan kost að koma.“ 

„Endurspeglast kannski í einhverju sem maður sér ekki“

Ekki hafa verið gerðar rannsóknir á því hvort kynþáttafordómar þrífist innan lögreglunnar. Lögreglunemar sækja nú skyldunámskeið um fjölmenningu, hatursglæpi og samskipti við ólíka samfélagshópa en þegar þeir Unnar og Hreinn voru í lögregluskólanum var engin slíkur kúrs í boði. Rúm tíu prósent starfandi lögreglumanna hafa setið símenntunarnámskeið um þetta. „Þetta lærist svolítið as we go, eins og maður segir. Við erum að reyna að bæta okkur þar, við sóttum námskeið,“ segir Hreinn. Unnar segir að námskeiðið hafi verið gagnlegt. „Það var ekki bara áhersla á innflytjendur og nýbúa heldur farið yfir samkynhneigða og hinsegin fólk, við fengum bara mjög góða fræðslu þarna.“

epa08455603 A police officer aims at protesters during a face-off in the Fairfax neighborhood as thousands of protesters take the street to demonstrate following the death of George Floyd, in Los Angeles, California, USA, 30 May 2020. A bystander's video posted online on 25 May appeared to show George Floyd, 46, pleading with arresting officers that he couldn't breathe as an officer knelt on his neck, in Minnesota. The unarmed black man later died in police custody.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA
Lögregluofbeldi- og aftökum mótmælt í Los Angeles, Bandaríkjunum.

Hreinn segir námskeiðið hafa opnað augu sín. „Það var talað um það á námskeiðinu að við erum í algerri forréttindastöðu sem hvítir, miðaldra karlmenn. Við sjáum þetta ekki. Þetta var pínu opinberun fyrir mig. Ég held bara að menn átti sig ekki á því, þó þetta sé einhvers staðar, hvort þetta fólk sé að upplifa fordóma. Ég get sagt að ég hef aldrei orðið var við fordóma gagnvart útlendingum eða samkynhneigðum en þeir kannski endurspeglast í einhverju öðru sem maður sér ekki.“

„Við reynum alltaf að fara í hvert mál til að leysa það, það fá allir sinn séns og vonandi eru allir lögreglumenn þar, á því plani,“ segir Unnar. 

Tengdar fréttir

Innlent

Kyrkingartak stranglega bannað í íslensku lögreglunni

Lögreglan langt frá því að endurspegla samfélagið

Innlent

Segir Íslendinga þurfa að horfast í augu við fordóma