
Svíar óvelkomnir í fyrsta sinn í 400 ár
Fyrir hálfum öðrum mánuði skrifuðu 22 vísindamenn í Svíþjóð opið bréf í dagblaðið Dagens Nyheter þar sem þeir vöruðu við því hvernig sænsk stjórnvöld, með Anders Tegnell sóttvarnalækni í fararbroddi, tækju á farsóttinni.
Gagnrýni þeirra féll í fremur grýtta jörð og stjórnvöld héldu sínu striki. Björn Olsen, prófessor í smitsjúkdómafræðum, hefur gengið hvað harðast fram af þessum vísindamönnum og haldið gagnrýni sinni á lofti frá upphafi.
Hann varaði þegar í upphafi við að farsóttin gæti orðið mannskæð ef ekki yrði gripið til harðra aðgerða, samkomubanns og annarra tálmana. Hans ráðum var ekki fylgt og í dag er dánartíðnin í Svíþjóð mun hærri en annars staðar á Norðurlöndunum og reyndar víðast hvar í Evrópu.
Olsen sagði í viðtali við Stöð 4 í Svíþjóð í gærmorgun að réttast hefði verið að loka landinu strax í upphafi og fylgja fordæmi annarra ríkja á Norðurlöndum.
Olsen segist hreinlega ekki skilja af hverju Tegnell og sænsk stjórnvöld hafi valið að fara aðra leið en nær öll önnur lönd í heiminum. Hann bendir á að þeim löndum sem gripu til hvað harðastra aðgerða, hefði gengið best að draga úr umfangi smita. Og að efnahagslegar afleiðingar farsóttarinnar hafi verið síst betri í Svíþjóð en í ríkjum sem gripu til harðra aðgerða; samkomubanns og lokunar landamæra.
Ofan á allt þetta bætist svo, segir Olsen, að Svíar séu nú, í fyrsta sinn síðan í 30 ára stríðinu, ekki velkomnir til annarra landa í Evrópu. Það var fyrir 400 árum, í upphafi 17. aldar.