Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segja orkuskipti í Akureyrarhöfn mikil gleðitíðindi

11.06.2020 - 11:02
Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Pétur Ólafsson hafnarstjóri á Akureyri, undirrituðu í morgun samning um styrkveitingu ríkisstjórnarinnar til rafvæðingar hafnarinnar að upphæð 43,8 milljóna króna, að viðstaddri Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri.

Verkefnið gengur út á að setja upp háspennutengingu fyrir flutningaskip, fiskiskip og minni skemmtiferðaskip við Tangabryggju, en framkvæmdir eru þegar hafnar. Með raftengingunni dregur úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá skipum í Akureyrarhöfn, sem geta þá tengst rafmagni í landi í stað þess að brenna olíu. Um leið dregur úr hljóðmengun frá skipsvélum og rafstöðvum um borð.

„Þetta eru mjög mikilvæg skref í að rafvæða hafnir. Það eru margir kostir sem fylgja þessu og mjög mikilvægt að stjórnvöld og ríkið komi núna inn með sveitarfélögunum til að aðstoða við þessi orkuskipti og þessa byltingu sem þarf að verða í þessum málum,“ sagði Guðmundur Ingi í samtali við fréttastofu eftir undirritunina.

Heldurðu að skipafélögin fylgi með?

„Já ég held það. Við erum að sjá það bæði hér á Akureyri og í Reykjavík þar sem við erum búin að skrifa undir svona samninga, að þar er þetta samstarfsverkefni. Skipafélögin og hafnirnar eru að vinna í þessu saman og veitufyrirtækin. Þannig að þetta er stórt samfélagslegt verkefni sem allir taka þátt í.“

Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson
Guðmundur Ingi, Ásthildur og Pétur á Akureyrarhöfn eftir undirskriftina.

Akureyringar og Eyfirðingar í fararbroddi

Guðmundur Ingi talaði vel um Akureyringa og þeirra baráttu í umhverfismálum við undirskriftina.

„Akureyringar og Eyfirðingar hafa leitt vagninn í umhverfismálum að mörgu leyti. Ég sæki heilmikið hingað í Eyjafjörðinn þegar kemur að því hvernig ég vinn mína vinnu og hér eru margar góðar hugmyndir á lofti. Það gleður mig svo sannarlega að geta komið hingað og lagt þessu verkefni lið, að rafvæða hafnirnar hér á Akureyri.“

Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson
Kjartan Jónsson kynnir framkvæmdirnar í dag.

Gleðilegt að vinna Akureyringa vekur athygli

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri segir þetta mikilvægt skref, enda vilji Akureyringar vera í fararbroddi í umhverfismálum.

„Við erum í fararbroddi og viljum halda þeirri stöðu. Þetta er eitt af skrefunum til að ganga áfram og hugsa um nýjar leiðir. Þetta er mikils virði, ekki síst út frá því að ráðuneytið sýnir mikinn skilning á því sem við erum að gera og tekur eftir því hvernig Akureyringar hugsa um umhverfið og vilja fara nýjar leiðir þegar kemur að umhverfismálum. Þannig þetta skiptir okkur miklu máli og hvetur okkur til dáða,“ sagði Ásthildur eftir undirskriftina.

Verkefnið er hluti af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar og 210 milljónir fara alls í rafvæðingu tíu hafna um allt land. Hér má sjá skiptingu styrkja eftir höfnum landsins.