
Segja hægt að skima án hjúkrunarfræðinga
Síðasti samningafundur hjúkrunarfræðinga og ríkisins, sem jafnframt var sá fyrsti eftir að hjúkrunarfræðingar samþykktu verkfallsboðun með yfirgnæfandi meirihluta, var á mánudag. Að loknum þeim fundi sagði Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari að fundurinn hafi verið þungur og erfiður og ekki væri ástæða til að boða til nýs fundar að svo stöddu.
Mikið ber í milli deilenda, einkum er það launaliðurinn sem tekist er á um en hjúkrunarfræðingar krefjast hærri grunnlauna, en formaður samninganefndar ríkisins hefur sagt að ríkið hafi teygt sig eins lagt og kostur væri. Semjist ekki fyrir þann tíma skellur verkfall hjúkrunarfræðinga á klukkan átta að morgni mánudagsins 22. júní og mun áhrifa þess gæta á sjúkrahúsum og heilsugæslum um land allt.
Sem kunnugt er verða landamæri Íslands opnuð að hluta á mánudag og hefst þá skimun ferðamanna fyrir kórónuveirunni. Alma Möller landlæknir segir í Fréttablaðinu í dag að það ætti að vera hægt að halda skimun óraskaðri þótt komi til verkfalls hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðingar taki ekki þátt í greiningu sýna heldur komi að sýntatökunni sjálfri og ljóst sé að aðrar heilbrigðisstéttir geti sinnt því og jafnvel háskólanemar. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir staðfestir það og segir lífeindafræðinga geta tekið strokusýni, en einnig geti læknar og sjúkraliðar gert það. Bæði landlæknir og sóttvarnalæknir segja þó að óljóst sé hvaða áhrif verkfall hjúkrunarfræðinga myndi hafa á skimunarverkefnið.