Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir lífskjarasamninginn að óbreyttu fallinn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir lífskjarasamningana vera fallna og að VR muni ekki verja samningana miðað við stöðuna eins og hún er í dag. Ríkisstjórnin hafi  ekki staðið við fyrirheit um afnám 40 ára verðtryggðra jafngreiðslulána, né loforð um hlutdeildarlán.

Morgunblaðið greinir frá og segir Ragnari hafa lýst þessum sjónarmiðum á fundi með þjóðhagsráði í gær. „Staða þessara tveggja mála gerir það að verkum að samningarnir eru fallnir. Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðuneytisins. Ég er búinn að hafa samband við félaga okkar í Eflingu til að funda um stöðuna og mögulegar aðgerðir í haust,“ hefur blaðið eftir Ragnari.

Ragnar  minnir á að þann 1. september virkjast endurskoðunarákvæði lífskjarasamningsins, en meðal atriða sem þá verða tekin til endurskoðunar eru þróun kaupmáttar og efndir stjórnvalda vegna samningsins. Nóg sé að annað þessara atriða hafi ekki gengið eftir til að fella samninginn.