Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segir COVID geta leitt til íbúðaskorts

11.06.2020 - 09:09
Drónamyndir.
 Mynd: RÚV
Áhrifa COVID-19 er líklega farið að gæta á íbúðamarkaði að mati hagfræðings sem segir hættu á að færri nýjar íbúðir verði byggðar sem geti leitt til íbúðaskorts.

Bergþóra Baldursdóttir hagfræðingur í Greiningu Íslandsbanka skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hún fjallar um áhrif kórónuveirufaraldursins á íbúðamarkað. Hún segir ljóst að faraldurinn muni hafa áhrif á markaðinn og nýleg gögn bendi til að þeirra áhrifa sé þegar farið að gæta. Hætta sé á að líkt og í síðustu kreppu verði veruleg fækkun á nýjum íbúðum í byggingu sem geti haft það í för með sér, verði ekki gripið í taumana, að innan fárra ára verði skortur á íbúðum þegar hagkerfið tekur við sér á ný.

Bergþóra segir bein áhrif faraldursins enn óljós vegna tafa á gögnun, en miðað við apríl og maí sé áhrifanna þegar farið að gæta.  Markaðsverð hafi lækkað um 2% í maí samkvæmt mælingum Hagstofunnar og samkvæmt Þjóðskrá hafi þinglýstum kaupsamningum fækkað um helming í apríl miðað við sama tíma fyrir ári.

Stjórnvöld hafi gripið til aðgerða meðal annars með því að hækka tímabundið endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við viðhald og nýbyggingar, en þörf gæti verið fyrir frekari aðgerðir til að koma í veg fyrir ójafnvægi á íbúðamarkaði.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV