Samkomur mega telja 500 manns frá 15. júní

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samkomutakmarkanir verða rýmkaðar þann 15. júní úr 200 manns í 500 manns. Þær verða í gildi til 5. júlí samkvæmt auglýsingu sem Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, undirritaði í gær og er í samræmi við minnisblað sóttvarnarlæknis frá 8. júní.

Veitingastaðir loki áfram klukkan 23:00

Mannfjöldatakmarkanir í sundlaugum og líkamsræktarstöðvum hafa frá 25. maí miðast við 75% af leyfilegum hámarksfjölda. Engar sérstakar takmarkanir verða því í gildi á þessum stöðum utan 500 manna hámark.

Veitingastöðum sem selja áfengi og spilasölum verður áfram óheimilt að hafa opið lengur en til 23:00 þar sem þeir teljist reka starfsemi með sérstaka smithættu.

Áfram eru einstaklingar hvattir til að viðhalda tveggja metra fjarlægð við aðra þegar aðstæður leyfa. Grunn- og leikskólastarfsemi er enn undanskilin þessum takmörkunum til þess að skólahald raskist ekki.

Sóttvarnarlæknir greindi frá því í vikunni að fá greind smit undanfarið væri vísbending um að lítið sé um virk smit í landinu. Aðeins níu einstaklingar hafa greinst með veiruna á landinu frá því í byrjun maí. Af þeim greindust tveir á veirufræðideild en sjö hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Fréttin var uppfærð 15:57

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi