Rowling svarar ásökunum um fordóma sína gegn transfólki

epa03864552 (FILE) A file picture dated 07 July 2009 shows British author J K Rowling appearing on the red carpet at the world premiere of 'Harry Potter and the Half Blood Prince' in Leicester Square, London, Britain. On 12 September 2013,
 Mynd: EPA - EPA FILE

Rowling svarar ásökunum um fordóma sína gegn transfólki

11.06.2020 - 10:37
J. K. Rowling birti í gær yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem hún skrifar um ástæður þess að hún hafi tjáð sig um málefni kyn og kyngervis. Yfirlýsingin kemur í kjölfar tísta sem hún birti síðustu helgi sem þóttu gera lítið úr upplifun kynsegin og transfólks.

Hávær umræða hefur verið að eiga sér stað á netinu í kjölfar tístanna sem rekja uppruna sinn til greinar sem Rowling deildi. Þar fannst henni undarlegt að fjallað væri um „fólk“ sem færi á blæðingar en ekki „konur“ sem færu á blæðingar. Netverjar voru fljótir að benda Rowling á að með tístinu væri hún að gera lítið úr trans og kynseginfólki og þær ábendingar urðu til þess að Rowling birti röð tísta. Þar tók hún það meðal annars fram að hún þekki og elski transfólk og styðji bæði þau og réttindi þeirra, á sama tíma hafi líf hennar hins vegar verið mótað af því að vera kona og það sé ekki hægt að túlka það sem hatur að hún segi að líffræðilegt kyn sé raunverulegt. 

Leikarar úr galdraheimi Harry Potter, sem er þekktasta sköpunarverk Rowling, hafa margir tjáð sig um málið. Daniel Radcliffe, sem lék sjálfan Potter, sagði transkonur vera konur og yfirlýsingar sem láta annað í ljós eyði bæði upplifun og virðingu transfólks. Leikarinn Eddie Redmayne, sem leikur eitt aðalhlutverkið í Fantastic Beast myndunum, sagði að hann væri ósammála athugasemdum Rowling, transkonur væru konur og transkarlar væru karlar. Nú síðast tjáði Emma Watson, sem lék Hermione Granger í kvikmyndunum, sig á Twitter þar sem hún segir transfólk vera það sem þau segja að þau séu og eigi skilið að lifa lífi sínu án þess að vera stöðugt dregin í efa. 

Í yfirlýsingunni sem Rowling birtir á heimasíðu sinni byrjar hún að rekja áhuga sinn á málefnum transfólks sem hún segir hafi kviknað löngu áður en hún tísti til stuðnings Mayu Forstater í desember á síðasta ári. Hún hafi verið fullkomlega meðvituð um hver viðbrögðin myndu verða þegar hún tísti til stuðnings hennar enda hafi á þeim tímapunkti verið búið að slaufa henni (e. cancel) að minnsta kosti fimm sinnum.

Hún hafi búist við hótunum um ofbeldi, að hún yrði kölluð tussa og tík og að bækurnar hennar yrðu brenndar. Hún hafi hins vegar ekki búist við tölvupóstunum og bréfunum sem rigndu yfir hana þar sem fólk var jákvætt, þakklátt og sýndi henni stuðning. Þau hafi verið frá mismunandi fólki, meðal annars transfólki sem var hrætt um ungt fólk, samkynhneigt fólk og hrætt um réttindi kvenna og stúlkna. 

Rowling segir áhuga sinn á málefninu vera annars vegar vinnutengdan þar sem hún sé að skrifa glæpasögu sem gerist í nútímanum og kvenkyns persóna sögunnar sé á þeim aldri að hún gæti haft áhuga á þessum málum og líklegt sé að hún þau hafi áhrif á hana.

Hins vegar sé áhuginn sprottinn af persónulegri reynslu hennar af heimilis- og kynferðislegu ofbeldi, sem er eitthvað sem hún hefur ekki tjáð sig um hingað til.

Rowling leggur áherslu á að hún stígi ekki fram með frásögn af ofbeldinu í þeirri von að henni verði vorkennt heldur geri hún það í samstöðu með þeim fjölda kvenna sem eigi svipaða sögu og hafa verið kallaðar fordómafullar fyrir að finnast kynlaus rými (e. single-sex spaces) áhyggjuefni. Auk þess hafi hún áhyggjur af þeim áhrifum sem það hafi á önnur málefni sem hún styðji, þar sem lagt er áhersla á konur og stúlkur, að verið sé að eyða lagalegri skilgreiningu á kyni (e. sex) og skipta henni út fyrir kyngervi (e. gender). Hún óttist líka áhrifin sem sú barátta hafi á menntun og öryggi barna. 

Að lokum segir Rowling að það síðasta sem hún vilji í kjölfar yfirlýsingarinnar sé að fólk „dragi fram fiðlurnar.“ Hún sé einstaklega lánsöm, þolandi en alls ekki fórnarlamb. Eina ástæðan fyrir því að hún nefni þessa fortíð sína í þessu samhengi sé vegna þess að eins og allir aðrir eigi hún forsögu sem móti ótta hennar, áhuga hennar og skoðanir.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Harry Potter leikarar fordæma tíst Rowling um transfólk

Bókmenntir

Höfundur Harry Potter sökuð um fordóma gegn transfólki