Play með nægt fjármagn til að fljúga í haust

11.06.2020 - 06:40
Mynd með færslu
 Mynd: Play
Play hefur aðgang að nægilegu fjármagni til að fara í loftið og ætlar flugfélagið að hefja flug í haust. 

Þetta segir Skúli Skúlason, stjórnarformaður Play í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag. 

„Ef COVID þróast í jákvæða átt þá erum við að horfa á að byrja áætlunarflug okkar í október. Það fer mikill tími í viðræður við flugvélaleigusala, hvaða kjör og hvers konar vélar eu í boði og hvernig þær passa inn í samsetningu á framtíðarflotanum. Enn er alveg óljóst og fer eftir því hvernig staðan verður, hvort við byrjum með eina eða fleiri vélar, enda erfitt að taka ákvarðanir með alla þessa óvissuþætti fyrir framan sig,“ segir Skúli.

Forstjóri Play sagði í viðtali við RÚV í maí  að félagið geti hafið áætlunarflug með nokkurra daga eða vikna fyrirvara og að til skoðunar sé að hefja áætlunarflug í sumar eða haust. 

Samkvæmt Skúla virðist Play nú horfa til haustsins. Fyrirtækið er í dag með 36 starfsmenn, sem sumir eru í hlutastörfum, og kostar reksturinn í dag um 45 milljónir á mánuði.  

„Við erum að brenna á bilinu 200-300 þúsund evrum á mánuði í reksturinn núna, sem við getum staðið vel undir þangað til við sjáum tekjustreymi byrja vonandi í haust. Við erum með aðgang að nægri fjármögnun til að fara í loftið,“ segir Skúli sem horfir til þess að Play geti verið komið með sex til átta vélar næsta vor.

 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi