Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Nærri tuttugu stiga hitamunur á Hallormsstað í dag

11.06.2020 - 15:44
Mynd með færslu
 Mynd: tjalda.is - RÚV
Tæplega tuttugu stiga hitamunur hefur verið á Hallormsstað það sem af er degi. Lægst fór hitinn í rúm fjögur stig um klukkan þrjú í nótt en hiti hefur farið í 23,3 stig í dag sem er mesti hiti sem mælst hefur á landinu í dag, og það sem af er ári.

Samkvæmt sjálfvirkri mælingu á heimasíðu Veðurstofunnar mældist hitinn á Hallormsstað við frostmark þegar hann var lægstur síðasta sólarhringinn. Það reyndist þó bilun í mæli og var lægsti hitinn þar hins vegar rúm fjögur stig. Það er engu að síður nærri tuttugu stiga hitamunur. 

Páll Ágúst Þórarinsson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofunni, segir að nú séu kjörin skilyrði á svæðinu fyrir svo mikinn hitamun. Það hafi verið alveg heiðskírt að undanförnu og því mikil útgeislun á kvöldin og á nóttunni, en sólin sömuleiðis hitað vel á daginn. Þá er suðvestanátt þarna yfir sem heldur hafgolunni frá.

Hitinn fór í fyrsta sinn í ár yfir tuttugu stig á landinu á þriðjudag, þá 20,5 stig í Ásbyrgi. 23,3 stig í Hallormsstað í dag er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu það sem af er ári. Þá hefur hitinn einnig náð 23 stigum á Egilsstaðaflugvelli í dag.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV