Meirihluti kæra til úrskurðarnefndar frá körlum

11.06.2020 - 07:15
Mynd með færslu
Mannlíf á Austurvelli. Mynd úr safni.  Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Karlar voru mikill meirihluti þeirra sem kærðu mál til úrskurðarnefndar um upplýsingamál í fyrra. Kærur frá einstaklingum voru alls 116 og allar nema sex frá körlum.

Þetta kemur fram í skýrslu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um framkvæmd upplýsingalaga árið 2019. Hún hefur lagt skýrsluna fyrir Alþingi en skýrslan er sú fimmta frá árinu 2016. 

Þar er fjallað um meðferð mála á árinu og sett fram tölfræði um fjölda þeirra og hvernig þau enduðu. Alls barst 191 kæra úrskurðarnefnd um upplýsingamál í fyrra sem er töluverð aukning frá árinu á undan þegar þær voru 146. Kærumál voru flokkuð eftir því hvort kærandi var einstaklingur, fyrirtæki, félagasamtök eða fjölmiðill. Langflestar kærurnar eru frá einstaklingum eða alls 116. Í skýrslunni voru teknar saman í fyrsta sinn kyngreindar upplýsingar um kærur frá einstaklingum. Þar segir að það hafi vakið athygli að 110 af kærunum hafi komið frá körlum en aðeins sex frá konum. 

Metfjöldi úrskurða hafi verið kveðinn upp árið 2019 eða alls 90 sem er nærri tvöfalt fleiri en þeir voru tveimur árum á undan. Málsmeðferðartimi var svipaður í fyrra og árið 2018 eða að meðaltali 222 dagar frá kæru til úrskurðar.  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi