Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mannréttindadómstóllinn vísaði máli Carls Jóhanns frá

epa04590334 A general view of the entrance during the hearing in the case Perincek vs Switzerland, at the European Court of Human Rights (ECHR) in Strasbourg, France, 28 January 2015. The European Court of Human Rights holds a Grand Chamber Hearing in the
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg. Mynd: EPA - KEYSTONE
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að mál Carls Jóhanns Lilliendahl, sem dæmdur var fyrir hatursorðræðu í Hæstarétti Íslands fyrir þremur árum, sé ekki tækt til efnismeðferðar. Málinu var því vísað frá.

Hatursorðræða Carls beindist að samkynhneigðum en hann ritaði ummæli við frétt Vísis um hinseginfræðslu Samtakanna '78 sem Hafnarfjarðarbær áformaði að innleiða í grunnskóla í bæjarfélaginu.

Í athugasemd sinni sagði Carl „ógeðslegt að innræta í börn hvernig kynvillingar eðla sig í rúminu“. 

Hæstiréttur taldi að um væri að ræða gróf og meiðandi ummæli og felldi þau undir ákvæði hegningarlaga um hatursorðræðu. Var Carli gert að greiða 100 þúsund króna sekt.

Taldi vegið að tjáningarfrelsi sínu

Carl Jóhann taldi að með dómi Hæstaréttar væri vegið að tjáningarfrelsi sínu, sem meðal annars er verndað í Mannréttindasáttmála Evrópu. Dómstóllinn hugðist birta dóm í málinu í morgun en birti þess í stað úrskurð um að ekki hefði verið nægilegt tilefni fyrir Carl að kvarta til dómstólsins vegna dóms Hæstaréttar.

Í málinu þurfti dómstóllinn að vega og meta hvort að í þessu tilfelli hafi verið réttlætanlegt að takmarka tjáningarfrelsi til þess að vernda réttindi samkynhneigðra. Við þetta mat skoðaði dómstóllinn meðal annars alvarleika ummælanna. 

Dómstóllinn taldi að ummælin gætu ekki talist til „grófrar hatursorðræðu“ eins og hún hefur verið skilgreind í dómafordæmum. Ástæðan sé sú að þrátt fyrir að athugasemdin hafi verið verulega fordómafull, þá hafi hún ekki verið til þess fallin að útrýma mannréttindum eða hvetja til ofbeldis eða haturs. 

Þrátt fyrir þetta þá taldi dómstóllinn ekki leika vafa á því að ummælin hafi fallið undir ákvæði almennra hegningarlaga um hatursorðræðu.