Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lífrænt sorp hirt hjá borgarbúum um mitt næsta ár

Dagur B. Eggerstsson borgarstjóri segir að vilji borgarinnar standi til þess að borgarbúar geti flokkað lífrænan úrgang frá í sér tunnur á næsta ári. Dagur segir að um áramótin verði valið á milli tveggja leiða sem íbúar hafa prófað í tilraunaskyni í tveimur borgarhlutum

Rætt var við Dag í Kastljósi í kvöld. Þar sagði hann að hvergi annars staðar á landinu falli jafn mikið til af úrgangi og á höfuðborgarsvæðinu. Því hafi önnur sveitarfélög orðið fyrri til að flokka lífrænt. 

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur varaði árið 2014 við því að Gas- og jarðgerðarstöðin, GAJA, myndi ekki virki sem skyldi ef sveitarfélögin hæfu ekki sérsöfnun lífræns úrgangs. Hann sagði í Kastljósi í gær að tæknin byggi á að úrganginum sé sérsafnað lífrænt sorp en sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu bjóði ekki upp á slíka söfnun. Hætta sé á að of mikið af eiturefnum, plasti og öðrum efnum berist í moltuna og að hún verði ónothæf.

Dagur sagði í Kastljósi í kvöld að orð Stefáns hefðu komið á óvart enda ætti hann að vita betur hafandi verið borginni til ráðgjafar. „Hann hefur verið ráðgjafi hjá okkur allavega í tveimur skorpum; annars vegar í kringum 2014 og 2015 og hins vegar í tengslum við viðauka við svokallaða aðgerðaáætlun í úrgangsmálum sem við réðumst í í fyrra.“  

Borgin hafi beint því til Sorpu árið 2015 að mikilvægt væri að í þarfagreiningunni fyrir Gas- og jarðgerðarstöðina yrði gert ráð fyrir móttöku á hreinu lífrænu sorpi. „Sorpa var svolítið stíf á þeirri meiningu að það væri nóg að taka við blönduðum en borgin hefur í raun verið kannski róttækari í gegnum tíðina að flokkun hafi gildi af tveimur ástæðum,“ segir Dagur. Önnur ástæðan sé að verðmæti felist í sorpinu og hin að með því að flokka geri fólk sér betur grein fyrir umfangi umbúða. 

Hægt að skipta móttökustöðinni upp

Dagur segir að hægt sé að skipta mótttökustöðinni í Gufunesi upp þannig að hreinn lífrænn úrgangur sé sér og blandaður sé annars staðar.  

Í aðgerðaáætlun borgarinnar 2015-2020 sé gert ráð fyrir því að þegar GAJA opnar verði farið að sækja lífrænt sorp heim til fólks. Það sé flókið að hirða hreinan lífrænan úrgang. Höfuðborgarsvæðið sé með hagkvæma sorphirðu og því hafi verið gerð tilraun fyrst með tvær útfærslur. 

Tilraunaverkefni hófst á Kjalarnesi í október í fyrra. Þar var tunnunni skipt upp en í haust verði prófuð sér tunna, brún tunna, í öðru hverfi. „Og um áramótin ætlum við okkur að velja á milli þessara aðferða til þess að geta sótt lífrænt heim til fólks um mitt næsta ár þegar við sjáum fyrir okkur að Gas-og jarðgerðarstöðin verður komin í fulla vinnslu.“ 

Þá skipti miklu máli að fá atvinnulífið til að flokka því 90 prósent af því sorpi sem falli til á höfuðborgarsvæðinu komi frá fyrirtækjum.  

Dagur segir að það verði tímamót í næstu viku þegar Gas- og jarðgerðarstöðin verður tekin í notkun. Fyrir umhverfið jafnist það á við að fjarlægja 40 þúsund bíla af götunum. 

Hægt er að horfa á allt viðtalið í spilararanum hér fyrir ofan.