Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kyrkingartak stranglega bannað í íslensku lögreglunni

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögregla hér á landi má aldrei beita hálstaki þar sem þrýst er á öndunarfæri eða öndun hindruð með öðrum hætti við handtöku. Þetta segir Ólafur Örn Bragason, forstöðumaður mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu.

Kyrkingartak við handtöku hefur verið til umræðu frá því að lögreglumaður í Minneapolis í Bandaríkjunum varð George Floyd að bana með því að þrýsta hné þétt að hálsi hans í tæpar níu mínútur.

Demókratar á bandaríska þinginu kynntu í fyrradag frumvarp sem meðal annars felur í sér bann við kyrkingartaki líkt og því sem varð Floyd að aldurtila. Mörg ríki Bandaríkjanna hafa þegar sett reglur sem girða fyrir notkun kyrkingartaks en á mánudag samþykktu yfirvöld í New York-ríki frumvarp þessa efnis.

Nýja löggjöfin er kennd við Eric Garner, þeldökkan mann sem lést þegar lögreglumaður beitti hann kyrkingartaki við handtöku í New York 2014. Í lögunum kemur fram að lögreglumenn sem valda líkamstjóni eða dauða með því að beita kyrkingartaki við handtöku geti átt yfir höfði sér fimmtán ára fangelsisvist.

Yfirvöld í Minneapolis ætla líka að banna kyrkingartak

epa08470153 A protester holds up a placard reading in French: 'Justice for Adama' during an anti-racism demonstration on the Champ de Mars (near the Eiffel Tower) in Paris, France, 06 June 2020. The protest was held to condemn the recent killing of George Floyd, a 46-year-old African-American man who died on 25 May after an arresting police officer knelt on his neck for several minutes in Minneapolis (Minnesota), USA, as well as the 2016 death of Adama Traore, a 24-year-old Malian French man who died under custody in a police vehicle after being pinned to the ground by three National Gendarmerie officers.  EPA-EFE/MOHAMMED BADRA
Mótmælendur í Frakklandi minnast Adama Traoré sem lést í haldi lögreglu 2016.

Beiting kyrkingartaks er ekki eingöngu bundin við lögregluna í Bandaríkjunum. Frakkar hafa til að mynda ákveðið að banna hálstakið umdeilda en beiting þess hefur verið kennd í lögregluskólum í landinu til þessa. Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands, tilkynnti um þessa ákvörðun á mánudaginn og viðurkenndi að kyrkingartak væri hættuleg handtökuaðferð.

Mótmæli vegna lögregluofbeldis hafa verið áberandi í Frakklandi frá því að lögregla olli dauða George Floyds og hafa mótmælendur sett mál Adama Traoré, 24 ára gamals þeldökks manns sem lést við handtöku frönsku lögreglunnar 2016, í samhengi við atburðina vestanhafs.

Segir að aldrei megi þrýsta á öndunarfæri

Hér á landi er ekki kveðið á um bann við kyrkingartaki í lögreglulögum eða reglugerð um valdbeitingu lögreglumanna. Ólafur nefnir að þetta komi hins vegar skýrt fram í námsefni lögregluþjóna og að enginn vafi leiki á því að beiting kyrkingartaks sé óheimil.

„Hér er mönnum kennt að þetta sé ekki í lagi og að aldrei megi þrýsta á öndunarfæri eða hindra öndun,“ segir hann. Hvorki má nota hendur né fætur til þess að þrengja að öndunarvegi þess sem til stendur að handtaka.

Mynd með færslu
Ólafur Örn Bragason, forstöðumaður mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu.

Ólafur bætir við að reglan um bann við beitingu kyrkingartaks sæki stoð sína í dómafordæmi.

Íslenskur lögregluþjónn þrýsti á háls við handtöku í fyrra

Þótt lögreglu hér á landi sé ekki heimilt að beita kyrkingartaki við handtöku eru til nýleg dæmi um slíkt.

Í mars á síðasta ári var karlmaður handtekinn með offorsi á barnum Irishman Pub í miðbæ Reykjavíkur en lögreglumaðurinn sem átti hlut að máli var ákærður fyrir að hafa slegið manninn í höfuð og andlit og að hafa þrýst hné sínu á háls og höfuð hans við handtökuna. Í myndbandsupptöku frá vettvangi heyrist maðurinn segjast vera „alveg að deyja“.

Lögreglumaðurinn var sakfelldur fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi í Héraðsdómi Reykjaness í febrúar síðastliðnum. Í dóminum segir að þær aðferðir sem lögregluþjónninn beitti við handtökuna geti með engu móti talist viðurkenndar valdbeitingar lögreglu.

Í téðu máli sló lögregluþjónninn til hins handtekna auk þess að þrýsta á öndunarfæri hans. Að sögn Ólafs leikur þó að enginn vafi á að hálstakið hefði dugað til sakfellingar eitt og sér. Er sú ályktun í samræmi við dóma sem fallið hafa í málum þar sem íslenskir lögreglumenn hafa þrengt að öndunarfærum við handtöku.

Telur ekki þörf á skýrara regluverki

Ólafur Örn segir að þrátt fyrir að ekki sé kveðið sérstaklega á um bann við kyrkingartaki í lögum og reglugerðum, sé ekki þörf á að gera regluverk í kringum kyrkingartök skýrara. Hann ítrekar að kennsluefni og dómafordæmi séu til staðar. „Fyrst það var dæmt um þetta, þá hlýtur þetta að vera skýrt,“ segir Ólafur.

Ólafur segir jafnframt að lögreglutök sem lögreglan notar hér á landi séu í sífelldri endurskoðun og að lögreglan hér á landi séu í nánu samstarfi við hin Norðurlöndin hvað verklag varðar. Hið sama má segja um áherslur í þjálfun lögreglumanna.